Sala á gulum vestum í verslun Húsasmiðjunnar í Kjalarvogi hefur tekið kipp, segir Finnur Guðmundsson, framkvæmdastjóri fagsölusviðs Húsasmiðjunnar.
Hann tekur þó fram að ekki sé um mikla aukningu að ræða, en að starfsfólk hafi orðið vart við að fleiri séu að festa kaup á slíkum vestum.
Ekki er vitað hvort yfirlýsingar formanns VR og formanns Verkalýðsfélagsins á Akranesi á Facebook-síðum sínum, um að þeir hafi fjárfest í gulum vestum, hafa haft áhrif á aukna sölu gulra vesta hjá Húsasmiðjunni.
Gul vesti hafa verið einkenni mótmæla í Frakklandi sem hafa staðið yfir frá 17. nóvember og snerust um fyrirhugaðar skattahækkanir á eldsneyti. Síðan hafa fylgt óeirðir í borgum landsins.