Reykvísk börn læri meira í forritun

Reykvísk börn munu læra meiri forritun, en tillaga þess efnis …
Reykvísk börn munu læra meiri forritun, en tillaga þess efnis var samþykkt í borgarstjórn í dag. Mynd úr safni. mbl.is/Eggert

Framboð forritunarnáms og forritunarkennslu í skóla- og frístundastarfi Reykjavíkurborgar mun aukast, samkvæmt tillögu sem samþykkt var samhljóða af fulltrúm allra flokka á fundi borgarstjórnar síðdegis í dag.

Sérstök áhersla verður lögð á að veita kennurum í grunnskólum Reykjavíkur rík tækifæri til starfsþróunar í forritunarkennslu í tengslum við innleiðingu á menntastefnu Reykjavíkur, samkvæmt fréttatilkynningu frá Reykjavíkurborg.

Tillaga um aukna forritunarkennslu kom frá Katrínu Atladóttur, borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins og var málið samþykkt eftir að meirihluti borgarstjórnar gerði breytingatillögu. Katrín sagði í ræðu sinni í í dag að tæknin væri orðin samofin öllu í okkar daglega lífi og myndi verða það í enn frekari mæli eftir því sem fram líður, en Katrín er hugbúnaðarverkfræðingur og tölvunarfræðingur og hefur þrettán ára starfsreynslu í forritun.

Katrín Atladóttir, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokks.
Katrín Atladóttir, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokks. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Í dag eru flest börn aðeins neytendur á tækni en skapa ekkert sjálf. Því má í raun segja þau séu læs en ekki skrifandi í tæknimálum. Til að geta tjáð sig við tölvur þarf að læra tungumál þeirra. Forritun er eina tungumálið sem tölvur tala,“ útskýrði Katrín í ræðu sinni í dag og bætti við að margt hefði verið gert til að reyna að stemma stigu við þessari þróun.

Hún sagði að flest lönd í Evrópu hefðu sett forritun á aðalnámskrá auk þess sem frumkvöðlar væru að búa til tæki og tól sem nýta megi til að kenna börnum forritun. Katrín benti á að í framtíðinni myndu koma fram á sjónarsviðið fjölmörg ný störf sem þekkjast ekki á vinnumarkaði dagsins í dag.

„Talið er að 65% starfa framtíðarinnar séu ekki til í dag. Störf framtíðarinnar munu reiða sig á tæknilæsi í meiri mæli. Árið 2020 mun vanta 800 þúsund manns með tæknimenntun í Evrópu. Stærsti hluti tæknimenntaðra eru karlar. Við viljum vera leiðandi í fjórðu iðnbyltingunni. Við verðum að byrja að undirbúa börnin.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert