Samninganefnd Eflingar hefur samþykkt að samningsumboð félagsins í kjarasamningunum verði dregið til baka frá Starfsgreinasambandinu og aftur til stéttarfélagsins.
„Niðurstaða fundarins var sem sagt sú að við drögum samningsumboðið til baka,“ sagði Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar og formaður samninganefndar félagsins, að loknum fundi samninganefndar stéttarfélagsins, sem fram fór í kvöld.
Samninganefnd Eflingar veitti Starfsgreinasambandinu samningsumboð í september. Það hefur nú verið dregið til baka. Samninganefndin veitti í kvöld Sólveigu Önnu einnig umboð til að ákveða hvort deilunni verði vísað til embættis ríkissáttasemjara.
„Ég fékk umboð samninganefndar til þess að taka ákvörðun um það og það mun væntanlega skýrast á morgun, eða hinn,“ sagði Sólveig Anna.