Kúlublys tekið úr umferð

Svifryk frá flugeldum getur verið hættulegt.
Svifryk frá flugeldum getur verið hættulegt. mbl.is/​Hari

Neytendastofa hefur stöðvað markaðssetningu á kúlublysi í kjölfar rannsóknar sem Umhverfisstofnun gerði á skoteldum.

Tekin voru 20 sýni hjá öllum sem fluttu inn skotelda fyrir síðustu áramót. Voru þau efnagreind fyrir arseni, blýi og hexaklóróbensen. Blý mældist í óeðlilegu magni í einu sýni, þ.a. í kúlublysi sem var í fjölskyldupakka frá fyrirtækinu PEP International. Blýið í kúlublysinu samsvaraði um 8% af þyngd púðurs í vörunni. Er það um 1500 falt hærri styrkur en mældist í hinum sýnunum.

Áður en rannsóknin var gerð höfðu efnagreiningar Umhverfisstofnunar á innihaldi blýs og arsens í svifrykssýnum frá Norðurhellu í Hafnarfirði um síðustu áramót sýnt greinilega aukningu á innihaldi blýs og arsens í samanburði við aðra daga. Gildin voru þó langt undir heilsuverndarmörkum hvað þessi efni varðar. Umhverfisstofnun ákvað í framhaldinu að ráðast í efnagreiningar á skoteldunum í ljósi þeirrar miklu loftmengunar sem varð um áramótin.

„Umhverfisstofnun hefur haft samband við alla innflytjendur vegna niðurstaðna eftirlitsins og bent þeim á að leita leiða til að draga sem mest úr innihaldi hættulegra efna í skoteldum sem þeir setja á markað,“ segir í tilkynningu frá stofnuninni.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka