Guðmundur Magnússon
„Við höfum engin önnur úrræði en að halda okkur innandyra og loka gluggum,“ segir Kjartan Mogensen, formaður Samtaka lungnasjúklinga, um mengun frá flugeldum um hver áramót.
Hann segir að lungnasjúklingar kvíði þessum árstíma, en mengunin getur verið þeim mjög skaðleg og leitt þá í andnauð. Ekkert hefur verið aðhafst til að stemma stigu við þeirri miklu loftmengun sem jafnan leggst yfir þegar flugeldum er skotið upp um áramót. Innflutningur og sala flugelda er með sama hætti og áður, að því er fram kemur í Morgunblaðinu í dag.
Guðmundur Ingi Guðbrandsson umhverfisráðherra sagði að Umhverfisstofnun (UST) muni auka mælingar á svifryki í kringum áramótin. Þá á UST að miðla upplýsingum um skaðsemi flugelda til almennings og hagsmunaaðila. Þrjú ráðuneyti munu skipa starfshóp til að safna upplýsingum um mengun af flugeldum og gera tillögur um aðgerðir til lengri tíma.