Áttu að kalla eftir upplýsingum og skýrslum

Hrólfur Jónsson var skrifstofustjóri skrifstofu eigna og atvinnuþróunar hjá borginni …
Hrólfur Jónsson var skrifstofustjóri skrifstofu eigna og atvinnuþróunar hjá borginni þar til í apríl á þessu ári. mbl.is/Eggert

Það að Hrólfur Jónsson, fyrrverandi skrifstofustjóri skrifstofu eigna og atvinnuþróunar (SEA), hafi ekki upplýst sína yfirmenn um stöðu mála leysir þá ekki undan þeirri ábyrgð að hafa heildarsýn yfir rekstur einingarinnar. Þá átti borgarstjóri að gegna þeirri skyldu að fara yfir veruleg frávik í verkefnum SEA. 

Þetta kemur fram í skýrslu innri endurskoðunar Reykjavíkurborgar um Nauthólsveg 100, n.t.t. í kafla þar sem fjallað er um eftirlit borgarritara og borgarstjóra með skrifstofu eigna og atvinnuþróunar borgarinnar. 

Bent er á, að í skýrslu innri endurskoðunar frá því í maí 2011, um mat á innra eftirliti hjá Reykjavíkurborg, segi m.a. um ábyrgð borgarstjóra:

Borgarstjóri er framkvæmdastjóri sveitarfélagsins og ber sem slíkur ábyrgð á stjórnsýslunni. Hann fylgir stefnumörkun borgarráðs/ borgarstjórnar eftir og útfærir þannig að meginstefnumið liggi fyrir gagnvart stoðeiningum og þýðingarmiklum verkefnum sem ganga þvert á sviðin. Borgarstjóri ber ábyrgð á uppbyggingu innra eftirlits hjá borginni í heild sinni gagnvart borgarráði.

Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri Reykjavíkur.
Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri Reykjavíkur. mbl.is/​Hari

Sótti sín mál fram hjá borgarritara

Fram kemur að SEA heyri undir borgarritara og síðan er borgarstjóri hans yfirmaður.

„Þrátt fyrir þetta hefur borgarritari haft lítil afskipti af SEA sem hefur í raun sótt sín mál fram hjá honum og til borgarstjóra. Það er ekki hlutverk borgarritara né borgarstjóra að hafa beinlínis eftirlit með daglegum verkefnum SEA, það er hlutverk skrifstofustjórans. Þeirra eftirlitsskylda felst í því að kalla eftir upplýsingum og skýrslum,“ segir í skýrslunni.

Þá segir, að Hrólfur hafi ekki upplýst borgarritara, borgarstjóra, fjármálahóp eða borgarráð um stöðu framkvæmdanna að Nauthólsvegi 100 og hafi ekki getað skýrt hvernig á því stóð. Tekið er fram að borgarritari og borgarstjóri hafi staðfest við innri endurskoðun að þeir hafi ekki fengið neinar upplýsingar frá SEA varðandi verkefnið.

Ábyrgð borgarstjóra og borgarritara að hafa heildarsýn yfir reksturinn

„Það að fyrrverandi skrifstofustjóri SEA upplýsti ekki sína yfirmenn um stöðu mála leysir þá ekki undan þeirri ábyrgð að hafa heildarsýn yfir rekstur einingarinnar og verkefni hennar. Borgarritara ber sem yfirmanni skrifstofustjóra SEA að fylgjast með því sem er að gerast þar innan veggja með því að kalla eftir skýrslum um framvindu mála. Ekki er gerð sú krafa til næsta stjórnanda að vera inni í öllum málum starfseininga sem undir þá heyra þar sem umsjón með daglegum rekstri er falin næstráðanda,“ segir í skýrslunni.

Tekið er fram, að borgarritari þurfi hins vegar að vera upplýstur um frávik frá settum markmiðum, bæði fjárhagslegum og faglegum, en í því samhengi megi líta til nokkurs konar mælaborðs stjórnanda sem gefi til kynna stöðu mála.

Stefán Eiríksson borgarritari.
Stefán Eiríksson borgarritari. mbl.is/Styrmir Kári

„Þó að hin formlega umboðskeðja hafi ekki verið virk með því að skrifstofustjóri SEA sótti sín mál fram hjá borgarritara og til borgarstjóra leysir það borgarritara ekki undan sinni stjórnunarlegu ábyrgð sem hann hefur samkvæmt umboðskeðjunni gagnvart SEA.“

Borgarstjóri hefði átt að fara yfir veruleg frávik

Þá segir, að borgarstjóri, sem starfaði samkvæmt því sem að ofan er ritað sem næsti yfirmaður skrifstofustjóra SEA, „hefði átt að gegna þeirri stjórnunarlegu skyldu að fara yfir veruleg frávik í verkefnum skrifstofunnar“.

Fram kemur, að borgarstjóri hafi sagt í viðtali við innri endurskoðun að hann hefði engar upplýsingar fengið um framvindu framkvæmdanna að Nauthólsvegi 100 eftir að hann undirritaði leigusamninginn við HR/Grunnstoð í september 2015, að öðru leyti en því sem upplýst hefði verið í borgarráði.

„Draga má þann lærdóm af endurgerð bygginga við Nauthólsveg 100 að skýrslugjöf um framvindu fjárfestingaráætlunar þurfi að veita fyllri mynd af stöðu verka og að það eigi sér stað umræður um frávik sem leiði til fullnægjandi viðbragða. Það er hlutverk borgarritara og eftir atvikum borgarstjóra að kalla eftir því að svo verði.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert