„Þetta er alla vega áfellisdómur yfir utanumhaldi um þetta verkefni,“ segir Dagur B. Eggertsson borgarstjóri í samtali við mbl.is, spurður um það hvort skýrsla innri endurskoðunar um braggann að Nauthólsvegi 100 sé á einhvern hátt áfellisdómur yfir störfum hans sem borgarstjóra.
„Eins og fram hefur komið í umræðunni þá er hluti þess sem að fór aflaga að ég og borgarráð, innkauparáð, borgarritari, vorum ekki látin vita í hvað stefndi og við verðum auðvitað að tryggja í gegnum ferla og utanumhald að það gerist ekki. Því að allir þessir aðilar, ég þar á meðal, verða að hafa tækifæri til þess að bregðast við og taka nýja ákvörðun og jafnvel stöðva verkefni ef þau stefna fram úr því sem upphaflega var lagt af stað með,“ segir Dagur.
Hrólfur Jónsson, fyrrverandi skrifstofustjóri skrifstofu eigna- og atvinnuþróunar hjá Reykjavíkurborg (SEA) og starfshættir skrifstofunnar í heild sinni fá nokkuð harða gagnrýni í skýrslunni, meðal annars fyrir að hafa ekki komið upplýsingum áleiðis til yfirmanna sinna. SEA heyrir undir borgarritara og borgarstjóra og þrátt fyrir að upplýsingar hafi ekki borist til þeirra varðandi þetta verkefni, þá er á þeirra ábyrgð að hafa yfirsýn yfir reksturinn og fara yfir veruleg frávik í verkefnum skrifstofunnar, samkvæmt skýrslu innri endurskoðunar.
Dagur segir að það sem hann líti alvarlegustu augum í skýrslunni sé það sem snýr að kostnaðareftirliti og „auðvitað öll frávik frá því að fylgja reglum.“
„Þarna eru líka ýmsar ábendingar um það sem að betur mætti hugsanlega fara í ferlum og regluverkinu sjálfu, hvernig skýrslur eru gefnar til borgarráðs þannig að borgarráð geti brugðist við. Svo er auðvitað eitt af því, sem að er svosem ekki nýtt heldur hefur komið fram í umræðunni, að þarna var ekki látið vita í tíma þannig að hægt væri að taka afstöðu til þess hvort ætti að halda áfram með verkefnið og gera braggann og nærliggjandi hús upp af þeim metnaði sem raunin varð. Þannig að þetta er niðurstaðan og núna förum við í að laga það sem laga þarf,“ segir Dagur, en honum ásamt Þórdísi Lóu Þórhallsdóttur formanni borgarráðs og Hildi Björnsdóttur hefur verið falið að móta tillögur að viðbrögðum við ábendingum í skýrslunni.
„Við erum að fara í rauninni að gera umbótaáætlun í kjölfarið og vinnum það þverpólitískt, sem er til fyrirmyndar,“ segir borgarstjóri.
„Það hefur verið hluti af þessu máli frá upphafi að þeir sem héldu utan um verkefnið gengust við ábyrgð sinni á því alveg frá upphafi og þar með talið fyrrverandi skrifstofustjóri SEA og ég held að það eigi ekki að gera lítið úr því eða öðrum niðurstöðum skýrslunnar, en það er hins vegar fjölmargt fleira sem að við þurfum að fara yfir í þessu, hvort sem það er ábyrgð eins manns eða einhverra einstaklinga. Þarna eru líka ferlar sem varða hvernig við höldum utan um fjárfestingar og framkvæmdir almennt og fjármál yfir höfuð og við ætlum okkur að fylgja því öllu eftir, til þess að svona endurtaki sig ekki.“