„Borgarstjóri verður að segja af sér - hann á enga undankomuleið.“ Þetta skrifar Vigdís Hauksdóttir, borgarfulltrúi Miðflokksins á Facebook í kvöld í kjölfar þess að skýrsla Innri endurskoðunar um braggamálið var kynnt í dag.
Vigdís segir að borgarstjóri sé framkvæmdastjóri Reykjavíkur og beri ábyrgð á öllum rekstri borgarinnar. Hrólfur Jónsson, fyrrverandi skrifstofustjóri skrifstofu eigna- og atvinnuþróunar hjá Reykjavíkurborg (SEA), hafi heyrt beint undir Dag og borgarritara.
„Það er lítilmannlegt að skella skuldinni á brottfarinn embættismann skrifstofunnar þegar vitað er að þeir tveir voru í nánu vinnusambandi án borgarritara,“ skrifar Vigdís.
Fram kemur í skýrslunni að samskipti Dags og Hrólfs hafi verið talsverð en báðir hafi þeir sagt að borgarstjóra hafi ekki verið kunnugt um stöðu framkvæmdanna við braggann.