Baldur Arnarson
„Ég vil leggja áherslu á að þrátt fyrir að við séum búin að draga samningsumboðið til baka vona ég og trúi að það verði áfram gott samstarf við félögin innan Starfsgreinasambandsins. Ég reikna ekki með öðru,“ sagði Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, í gærkvöldi.
Samninganefnd Eflingar veitti Starfsgreinasambandinu samningsumboðið hinn 25. september sl. og hefur það nú verið dregið til baka. Hefur nefndin nú veitt Sólveigu Önnu umboð til að ákveða hvort deilunni verði vísað til ríkissáttasemjara. Hún segir framhaldið skýrast í dag eða á morgun.
Sólveig Anna segir aðspurð ekki ólíklegt að Efling verði í samfloti með VR og jafnvel Verkalýðsfélagi Akraness í að vísa deilunni áfram til ríkissáttasemjara. Með því gætu félögin kosið um verkfallsaðgerðir.
Sólveig Anna lýsir yfir vonbrigðum með Samtök atvinnulífsins (SA). Þau hafi hugmyndir um gagngerar og róttækar breytingar á íslensku vinnuumhverfi gegn því að ýmis réttindi verði afnumin. Efling geti ekki samþykkt slíkt. Þá hafi útspil stjórnvalda valdið vonbrigðum. Það hafi ekkert verið annað í stöðunni en að vísa deilunni til ríkissáttasemjara.