„Ódýrasta herferð“ VR frá upphafi

Jón Gnarr leikur kröfuharðan verslunareiganda. Auglýsingin er hluti af herferð …
Jón Gnarr leikur kröfuharðan verslunareiganda. Auglýsingin er hluti af herferð VR um réttindi félagsmanna. Auglýsingin er umdeild. Ljósmynd/Hvíta húsið

Stéttarfélagið VR gefur ekki upp kostnað vegna auglýsingaverkefna. Þetta kemur fram í skriflegu svari Stefáns Sveinbjörnssonar, framkvæmdastjóra VR.

„Auglýsingastofan Hvíta húsið vinnur okkar auglýsingar og semur við leikara og framleiðendur,“ skrifaði Stefán sem tjáði sig að öðru leyti ekki um málið.

Tilefnið er annars vegar gagnrýni Samtaka verslunar og þjónustu (SVÞ) á auglýsingar VR. Nánar tiltekið varðandi auglýsingar þar sem Jón Gnarr, fv. borgarstjóri, er í hlutverki Georgs Bjarnfreðarsonar sem rekur verslunina Georgskjör. Telur SVÞ auglýsingarnar gefa ranga mynd af samskiptum launþega og atvinnurekenda. Hins vegar hefur umfang auglýsingaherferðanna vakið athygli. Fara þær fram í sjónvarpi, á netinu, á auglýsingaskiltum og með hinum ýmsu birtingarleiðum.

Vísaði á framkvæmdastjóra

Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, vísaði á Stefán varðandi umrædda fyrirspurn. Sjálfur hefði hann þessa kostnaðarliði ekki á takteinum. Var spurt um kostnað við auglýsingarnar í Georgskjöri og varðandi kulnun. Þá var m.a. spurt um laun aðalleikara í auglýsingum um Georgskjör.

Ragnar Þór segir kynningar- og útbreiðslumál hluta af starfsemi VR. Félagið haldi meðal annars fundi, gefi út VR-blaðið og skipuleggi auglýsingaherferðir.

Með fjölbreyttar herferðir

„Núna í ár vildum við vekja athygli á réttindum félagsmanna. Svo erum við með kulnunarherferðina og herferðina [með Jóni Gnarr]. Þetta er eins og herferðirnar sem við höfum verið með í gegnum árin. Við höfum til dæmis verið með jafnlaunavottunina en það er alltaf eitthvað nýtt og nýjar áherslur.

Ragnar Þór Ingólfsson.
Ragnar Þór Ingólfsson.

Margar þessar herferðir hafa farið undir ratsjána en aðrar hafa vakið athygli eins og Georgskjör. Miðað við athyglina sem þetta er að fá reikna ég með að þetta sé klárlega ódýrasta herferð sem VR hefur farið í frá upphafi,“ segir Ragnar Þór og bætir því við að vel sé fylgst með kostnaðinum við herferðirnar.

„Ég get bara svarað fyrir stjórnina. Við leggjum fram kostnaðaráætlanir og áætlanir almennt. Það eina sem við förum fram á við skrifstofuna er að þeim áætlunum sé fylgt. Við höfum hingað til alltaf verið á áætlun, eða undir áætlun, með þessa liði sem snúa að markvissum kynningarmálum.“

Án aðkomu stjórnarinnar

„Ég hef ekki tekið stöðuna einmitt núna en mér skilst að hún sé eftir þeim áætlunum sem stjórnin hefur sett í gegnum samþykktar rekstraráætlanir. Auglýsingastofan okkar sér um að semja við framleiðslufyrirtækin og við leikara og ýmislegt án þess að við í stjórninni komum þar nálægt,“ segir Ragnar Þór.

Hann segir aðspurður að eftir á að hyggja hafi auglýsingarnar í Georgskjöri reynst réttur leikur.

Til upprifjunar fór Jón Gnarr með hlutverk Georgs í Næturvaktinni, Dagvaktinni, Fangavaktinni og kvikmyndinni Bjarnfreðarson.

Kvikmyndin var sýnd 2009 en eftir hana snéri Jón sér að stjórnmálum og varð borgarstjóri kjörtímabilið 2010-2014.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert