„Jón Gnarr fyrrverandi borgarstjóri kemur Degi B. Eggertssyni eftirmanni sínum til varnar í furðulegri færslu á fésbókinni í dag og skýtur skotum í allar áttir um leið.“ Þannig hefst svar Vigdísar Hauksdóttur, borgarfulltrúa Miðflokksins, við skrifum Jóns Gnarr frá því fyrr í dag.
Vigdís segir að dagskrárvald vinstri manna í íslenskri þjóðmálaumræðu kristallist í þessari furðufærslu Jóns. „Hann er í fyrsta lagi pirraður á því að kallað sé eftir því að borgarstjóri vinstri manna axli ábyrgð á því rugli sem viðgengst fyrir allra augum undir hans stjórn. Hann er auðvitað vanur hinni óskráðu reglu margra fjölmiðla að gagnrýna bara stjórnmálamenn sumra flokka - en láta aðra alveg í friði,“ skrifar Vigdís.
Hún sakar Jón um karlrembu og kvenfyrirlitningu í sinn garð þegar Jón skrifaði að hann undraðist að haft hefði verið eftir Vigdísi á RÚV að Dagur ætti að segja af sér. Jón spurði hver væri að pæla í því hvað henni finnst.
„Jón Gnarr telur augsýnilega að oddviti stjórnmálaflokks í borgarstjórn - og fyrrverandi alþingismaður og formaður fjárlaganefndar Alþingis - eigi ekki að komast að í fréttum RÚV af því hann tilheyrir ekki réttum flokki - er ekki hluti af góða fólkinu og er þar að auki kona,“ skrifar Vigdís.
Hún segir að lengi hafi verið meira framboð en eftirspurn af skoðunum Jóns. Reglan hafi verið sú að meirihlutinn í borgarstjórn, bæði undir stjórn Dags og Jóns, hafi fengið frítt spil, fjarri smásjá fjölmiðla og minnihlutans. „Sá tími er liðinn.“
Vigdís segir að það sé ekki skrítið að Dagur og Jón séu óhressir en þeir megi vera vissir um að hún muni halda sínu striki, í þágu fólksins í borginni.