Reyna að hleypa fólki heim í jólamatinn

Sveinn Kr. Rúnarsson yfirlögregluþjónn.
Sveinn Kr. Rúnarsson yfirlögregluþjónn. mbl.is/Sigurður Bogi

Lögreglan á Suðurlandi verður á vaktinni um jólin, rétt eins og lögreglumenn annars staðar á landinu. Jólaandinn svífur yfir vötnunum á lögreglustöðvunum og mikil áhersla er lögð á að fólk geti borðað jólamatinn heima hjá sér.

„Þetta verður allt með hefðbundnu sniði hjá okkur og við vonumst til þess að það verði ekkert um að vera,“ segir Sveinn K. Rúnarsson, yfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á Suðurlandi. 

„Við erum með sólahrings viðveruvakt á einum stað, Selfossi. Við reynum að hleypa fólki heim til sín að borða. Það er grundvallaratriði að þeir sem eiga kost á því og búa nærri lögreglustöðvunum að þeir geti farið heim að borða ef verkefnin leyfa, þannig að menn og konur geti átt smá jólahátíð.“

Jólatréð á skrifstofu lögreglustjórans á Suðurlandi.
Jólatréð á skrifstofu lögreglustjórans á Suðurlandi. Ljósmynd/Aðsend

Á lögreglustöðvunum er búið að koma fyrir jólatrjám, auk þess sem skreytt hefur verið hátt og lágt, til að koma mönnum í jólaskap.

Umdæmi lögreglunnar á Suðurlandi nær yfir um þriðjung af landinu öllu. Það er því mjög stórt og umfangsmikið og hefur lögreglan kvartað yfir því að lögreglumönnum hafi ekki fjölgað í samræmi við aukinn fjölda fólks á svæðinu, þar á meðal aukinn fjölda erlendra ferðamanna. „Þetta er gríðarlega víðfeðmt svæði,“ segir Sveinn en kveðst vona að lögreglan geti eitthvað slappað af yfir hátíðarnar.

mbl.is/Kristinn Magnússon

Asískir ferðamenn fjölmennir um jólin

Lögreglan á Suðurlandi hefur glímt við mörg stór verkefni á árinu, þar á meðal umferðarslys og bruna. Spurður segir hann að nóg hafi verið að gera síðustu jól í umdæminu. Þar spili meðal annars inn í mikill fjöldi ferðamanna. „Það er mikið af asískum ferðamönnum á svæðinu sem eru ekkert endilega að halda upp á jólin,“ greinir Sveinn frá.

Bætt verður við löggæsluna í kringum skemmtanir yfir jólin og nefnir hann árlegt ball á Selfossi á annan í jólunum sem dæmi. Lítið hefur þó verið um slæma hegðun á þeim viðburðum. „Yfirleitt hafa þessar skemmtanir um jól og áramót farið nokkuð vel fram.“

Lögreglubifreið.
Lögreglubifreið. Ljósmynd/Lögreglan
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert