Jólin sammannleg hátíð ótengd trú

Sigurður segir hátíðina tengjast vetrarsólstöðum og að alltaf hafi verið …
Sigurður segir hátíðina tengjast vetrarsólstöðum og að alltaf hafi verið haldin hátíð í kring um þetta tímabil. mbl.is/​Hari

„Jólin eru ævaforn hátíð sem tengist kristinni trú ekki beint frekar en öðrum lífsskoðunum,“ segir Sigurður Hólm Gunnarsson, formaður Siðmenntar, félags siðrænna húmanista á Íslandi, aðspurður um jólahald félagsfólks í Siðmennt.

„Fólk í Siðmennt heldur allskonar upp á jólin, eins og flestir Íslendingar. Við gerum okkur glaðan dag, gefum pakka og förum í jólaboð. Krakkarnir hitta jólasveinana og setja skóinn út í glugga,“ útskýrir Sigurður.

„Allt sem ég nefni hér, jólasveinar, pakkar, góður matur, jólatré, tengist kristinni trú ekki neitt sérstaklega. Þetta byggir allt á gömlum hefðum sem voru teknar upp af kristnum mönnum síðar. Jóladagur, 25. desember, sem á að snúast um fæðingu frelsarans, hefur verið hátíðardagur mun lengur.“

Sigurður segir hátíðina tengjast vetrarsólstöðum og að mannfólkið hafi alltaf haldið hátíð í kring um þetta tímabil og fagnað því að dagurinn fari að sigra myrkrið að nýju.

„Það eina sem greinir okkur frá þeim sem halda upp á jól í trúarlegum tilgangi er þessi trúarlegi vinkill,“ útskýrir Sigurður. Því fari félagar í Siðmennt ekki í kirkju á jólum, ekki frekar en stærstur hluti íslensku þjóðarinnar.

„Fyrir mér eru jólin bara sammannleg hátíð. Við í Siðmennt höldum jólin óhikað og höfum gaman að því.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert