Lentu þrátt fyrir stormviðvaranir

Flugvél Titan Airways lendir á Akureyrarflugvelli í desember.
Flugvél Titan Airways lendir á Akureyrarflugvelli í desember. Ljósmynd/Auðunn Níelsson fyrir Isavia

„Þeir hafa verið þeir einu sem treystu sér niður,“ segir Hjalti Páll Þórarinsson, verkefnastjóri Flugklasans AIR 66N, um vél breska flugfélagsins Titan Airways, sem sinni leiguflugi fyrir Super Break, sem lenti á Akureyrarflugvelli á aðfangadag.

Samkvæmt vef Isavia var vélin sú eina sem lenti á flugvellinum á Akureyri í gær, en innanlandsflug lá niðri vegna veðurs.

„Þetta voru hátt í 200 farþegar sem verða hér yfir jól og fram á föstudag. Þá kemur annar hópur ferðamanna frá Super Break og sá næsti á gamlársdag,“ segir Hjalti.

Super Break hóf að bjóða ferðir til Akureyrar síðasta vetur en þá gekk allt á afturfótunum. „Það voru nokkur flug í fyrra sem beint var frá Akureyrarflugvelli. Oft á tíðum var það bara vegna veðurspár og við lentum í að standa hér í sólskini og 2 m/s og vélin á leið til Keflavíkur. Þar var um að kenna verklagi og tregðu hjá flugfélaginu,“ segir Hjalti, en flugfélagið Enter Air sinnti leiguflugi fyrir Super Break í fyrra, sem skipti um flugfélag í kjölfarið.

„Nú er þetta í takt við það sem við bundum vonir við og hér hafa allar vélar lent samkvæmt áætlun frá 10. desember,“ segir Hjalti. „Fulltrúar Titan Airways komu hingað til æfinga í nóvember, gerðu góða úttekt á vellinum og við sjáum að það skilar sér.“

Bara ósköp venjulegur flugvöllur

Hjalti segir að meðal annars hafi hingað komi sjö af æðstu yfirmönnum flugfélagsins, sem hann hafi fundað með. „Þá sagði framkvæmdastjórinn að hefðu þeir vitað hvernig aðstæður væru hefði þeir aldrei sent allt þetta fólk hingað, enda væri þetta bara ósköp venjulegur flugvöllur.“

„Þeir vildu taka þetta alvarlega því það gekk allt á afturfótunum hjá hinu flugfélaginu, en hjá Titan eru þeir vanir að fljúga á miklu erfiðari áfangastaði en Akureyri og eru öllu vanir.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert