Pétur Ármannsson arkitekt segir þjóðina áður hafa staðið frammi fyrir skorti á hagkvæmu íbúðarhúsnæði á höfuðborgarsvæðinu. Lausnir á þeim vanda hafi komið fram allt frá 1930.
Bygging félagslegra íbúða í Borgahverfi í Grafarvogi á 10. áratugnum sé síðasta verkefnið á vegum húsnæðisnefndar borgarinnar. Nefndin hafi síðan verið lögð niður.
„Fyrst þarf að skoða fjármögnunarhliðina. Þetta er ekki aðeins byggingartæknifræðilegt mál. Íbúðarbyggingar eru nú öðrum þræði fjárfestingarvara. Húsnæði er byggt til að tryggja örugga fjárfestingu. Þegar lögin um verkamannabústaði voru sett fólu þau í sér hagstæð lánakjör. Sú varð líka raunin árið 1965 þegar samkomulag náðist um byggingu íbúða í Breiðholti,“ segir Pétur í Morgunblaðinu í dag.