„Það er ekki allt til sölu“

Heimir reynir að höfða til skynsemi og tillitssemi ferðaþjónustunnar í …
Heimir reynir að höfða til skynsemi og tillitssemi ferðaþjónustunnar í aðstæðum sem þessum, þegar fólk vitjar leiða látinna ástvina sinna í kirkjugörðum. mbl.is/Eggert

„Þetta var greinilega skipulagt að koma í garðinn um hádegið til þess að sjá þegar það væri mesta traffíkin, sem var fólk að minnast látinna ástvina um jólin. Þau eru ekki að koma í hádeginu aðra daga,“ segir Heimir Björn Janusarson, umsjónarmaður í Hólavallakirkjugarði við Suðurgötu, í samtali við mbl.is.

Heimir gekk fram á þrjá hópa ferðamanna ásamt leiðsögumönnum í garðinum á aðfangadag sem „skáluðu og grínuðust“ í því sem honum virtist vera skipulögð dagskrá.

Hann segir augljóst að með þessu sé ferðaþjónustan að gera út á þann fjölda fólks sem kemur til þess að vitja leiða ástvina sinna á aðfangadag, en það er jafnan stór hluti jólanna hjá mörgum að minnast ættingja sinna sem látnir eru. 

Hólavallakirkjugarður.
Hólavallakirkjugarður. mbl.is/Hanna Andrésdóttir

Höfðar til skynsemi og tillitssemi ferðaþjónustunnar

Allt í kringum hópana segir Heimir að hafi verið aðstandendur að leggja greinar og kerti á leiði ástvina sinna og hafi þá einhverjir ferðamenn tekið upp síma og tekið myndir af þeim.

Heimir vakti athygli á málinu á Facebook-síðu sem nefnist „Bakland ferðaþjónustunnar“ og segir hann í færslu sinni þar að hann hafi spurt leiðsögumennina að því hvaða ferðaþjónustu þeir tilheyrðu en þeir þá svarað því til að þeir væru verktakar.

Heimir segir að honum þyki sjálfsagt að leiðsöguhópar hafi samband við kirkjugarðana og athugi hvort það standi vel á að koma með hópa í garðana, en með þessu reyni hann að höfða til skynsemi og tillitssemi þeirra sem stýra ferðaþjónustunni. „Það er ekki allt til sölu,“ segir Heimir. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert