Um 25 eftirskjálftar hafa fylgt í kjölfar snarps jarðskjálfta sem varð á Hellisheiði laust fyrir klukkan þrjú í nótt. Að sögn veðurfræðings er ekki um óeðlilega virkni að ræða.
„Það hafa komið í kringum 25 eftirskjálftar en þeir eru allir miklu minni. Sá stærsti var 1,8 en þessi stóri var 4,4,“ sagði veðurfræðingur Veðurstofu Íslands í samtali við mbl.is
Ekki er útlit fyrir að nokkur hafi fundið fyrir eftirskjálftunum, en fjölmargir urðu hins stóra varir á suðvesturhorninu í nótt og bárust Veðurstofu nokkur hundruð tilkynningar.
Að sögn veðurfræðings er um virkt jarðskjálftasvæði að ræða.
„Þetta er virkt skjálftasvæði sem skjálftinn verður á. Hann verður alveg vestast í suðurlandsbrotabeltinu og það er í rauninni bara brotabelti sem kemur út frá Reykjanesskaganum. Þetta eru flekaskilin sem að Ísland stendur á. Þessir skjálftar verða vegna sprunguhreyfinga á flekaskilunum.
Í rauninni er þetta eðlileg virkni. Svona stórir skjálftar verða náttúrlega ekkert mjög oft en það er alveg í hverri viku sem það eru litlir skjálftar þarna þannig að þetta er virkt jarðskjálftasvæði.“
Lögreglan á Suðurlandi skrifar um skjálftann á facebooksíðu sinni og bendir á fræðsluefni almannavarna um jarðskjálfta.