45% Íslendinga andvíg trú í skólastarfi

Sambærileg könnun var gerð árið 2015 fyrir Siðmennt. Um 10 …
Sambærileg könnun var gerð árið 2015 fyrir Siðmennt. Um 10 prósentustigum fleiri Íslendingar eru andvígir þvi að trú sé liður í skólastarfi nú en þá. mbl.is/Hari

Rúmlega 45% Íslendinga telja að kristnar trúarathafnir, bænir eða guðsorð eigi ekki að vera liður í starfi opinberra leik- og grunnskóla, en á milli 35% og 36% telja að trú eigi að vera liður í skólastarfi. Þetta kemur fram í niðurstöðum nýrrar skoðanakönnunar Maskínu, sem birt var í dag.

Sambærileg könnun var gerð árið 2015 fyrir Siðmennt. Um 10 prósentustigum fleiri Íslendingar eru andvígir þvi að trú sé liður í skólastarfi nú en þá.

Töluverður munur er á viðhorfi til kristinna trúarathafna í skólum eftir aldri. Með hækkandi aldri eru Íslendingar líklegri til þess að vera sammála því að kristnar trúarathafnir eigi að vera liður í skólastarfi. Fólk á aldrinum 18-29 ára er líklegast til þess að vera andvígt, eða tæplega 66% og Íslendingar 60 ára og eldri eru líklegastir til þess að vera hlynntir, eða um 60%.

Miðflokksfólk og Píratar skera sig úr

Mikill munur er sömuleiðis á milli hópa sem segjast ætla að kjósa mismunandi stjórnmálaflokka. Rúm 73% þeirra sem segjast myndu kjósa Miðflokkinn ef kosið væri í dag sögðust jafnframt hlynntir trúarathöfnum í skólastarfi og yfir 50% þeirra sem myndu kjósa bæði Sjálfstæðisflokk og Framsóknarflokk.

Á hinum endanum skera Píratar sig úr, en 76% þeirra segjast andvígir trúarathöfnum í skólastarfi og kjósendur Samfylkingar eru skammt á eftir, en yfir 64% þeirra sem segjast myndu kjósa Samfylkinguna ef gengið væri til kosninga í dag, lýsa sig andvíga trúarathöfnum í skólastarfi.

Viðhorfsbreyting hjá Austlendingum

Þá er einnig nokkur munur á viðhorfum eftir búsetu. Reykvíkingar eru líklegastir til þess að vera andvígir kristilegum trúarathöfnum í skólastarfi en Sunnlendingar og Reyknesingar eru líklegastir til þess að vera hlynntir þeim. Töluverð breyting hefur orðið á viðhorfi á meðal Austfirðinga á þessum þremur árum, því um 10% þeirra voru andvíg trúarathöfnum í skólastarfi árið 2015, en rúmlega 33% nú.

Nánar má fræðast um niðurstöður könnunarinnar á vef Maskínu.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert