Gunnlaugur Snær Ólafsson
„Það liggur alveg fyrir að þetta mál er umdeilt og ekkert óeðlilegt við það,“ segir Jón Gunnarsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins og varaformaður umhverfis- og samgöngunefndar Alþingis, við mbl.is inntur álits á miklum fjölda umsagna til nefndarinnar frá almenningi þar sem hugmyndum um veggjöld er andmælt.
Hann vísar til þess að mikil andstaða var við byggingu Hvalfjarðarganga á sínum tíma, en að sú framkvæmd hafi heppnast vel.
Um klukkan tvö í dag voru skráðar 239 umsagnir til nefndarinnar vegna málsins, þar af voru 218 erindi sem mæla gegn veggjöldum og 18 sem mæla með slíkri gjaldtöku.
Vefur sem aðstoðar almenningi að koma sjónarmiðum sínum á framfæri var auglýstur í pistli Björns Leví Gunnarssonar, þingmanns Pírata, í Morgunblaðinu í dag.
„Menn eru ekki farnir að ræða þetta í þeim smáatriðum enda í afgreiðslu samgönguáætlunar verður ekki tekið á slíkum tæknilegum útfærsluatriðum,“ svarar Jón spurður um hvar fyrirhuguð veggjöld skuli greiða við helstu umferðaræðar út af höfuðborgarsvæðinu.
Hann telur ekki vera hættu á því að gjaldtaka verði staðsett innan sveitarfélaga höfuðborgarsvæðisins þannig að íbúar þurfi að greiða veggjöld til þess að ferðast innan sveitarfélaganna. „Það eru ekki þær hugmyndir sem voru uppi í vinnuhópi sem skoðaði þetta í fyrra.“