Landsréttur hefur staðfest úrskurð Héraðsdóms Reykjavíkur um gæsluvarðhald yfir karlmanni til 26. janúar vegna sex mála sem eru til rannsóknar hjá lögreglunni þar sem maðurinn er grunaður um alvarleg hegningar- og sérrefsilagabrot á undanförnum mánuðum.
Fram kemur í gæsluvarðhaldsúrskurði héraðsdóms að maðurinn sé meðal annars grunaður um valdstjórnarbrot, tilraun til sérstaklega hættulegrar líkamsárásar og vopnalagabrot með því að hafa á síðasta ári ráðist að heilbrigðisstarfsmanni á Landspítalanum við Hringbraut.
Maðurinn hafi verið í viðtali við starfsmanninn en síðan dregið upp kjöthníf með ellefu sentimetra blaði, otað honum að starfsmanninum og meinað honum útgöngu. Óskað hafi verið eftir aðstoð lögreglu í kjölfarið vegna manns sem gengi þar berserksgang.
Þegar lögregla hafi komið á vettvang hafi starfsmönnum Landspítalans tekist að yfirbuga manninn. Starfsmaðurinn sem hafði tekið manninn í viðtal sagði hann hafa verið mjög vænisjúkan og í annarlegu ástandi. Hafi hann talið rétt að leggja manninn inn á deild.
Þegar starfsmaðurinn hafi ætlað að fara úr viðtalsherberginu og ræða við samstarfsfólk sitt hafi maðurinn meinað honum útgöngu og dregið upp hnífinn. Hafi átök þá hafist og starfsmanninum ásamt samstarfsfólki tekist að yfirbuga manninn og afvopna hann.
Hin málið snúast meðal annars um hótanir, íkveikjur, vopnalagabrot og brot gegn valdstjórninni þar sem hnífar komu í sumum tilfellum við sögu.