Þátturinn Hrafnaþing hefur göngu sína á ný kl. 20 í kvöld, en þessi umræðu- og landsbyggðarþáttur var sýndur á sjónvarpsstöðinni ÍNN um tíu ára skeið. Nú tekur hins vegar nýtt tímabil við í sögu Hrafnaþings og þátturinn verður framvegis birtur vikulega á vefnum í Sjónvarpi mbl.is.
Upptökur þáttarins fara fram í myndveri Morgunblaðsins í Hádegismóum, en þeir Ingvi Hrafn Jónsson og Jón Kristinn Snæhólm bera áfram alla ábyrgð á ritstjórn og framleiðslu þáttarins.
„Ferill minn hófst hjá Morgunblaðinu fyrir 53 árum síðan svo það er óhætt að segja að það sé gaman að fá að enda hann í þessum húsakynnum,“ segir Ingvi Hrafn. Hann segir þáttinn áfram verða með sama sniði og þegar hann var sýndur á ÍNN.
„Heimastjórnin mun koma reglulega fyrir og meðal fastra gesta verða fréttamaðurinn þjóðkunni Hallur Hallsson og Júlíus Hafstein, fyrrverandi borgarfulltrúi og sendiherra, ásamt efnahagsráðgjöfunum okkar, þeim Yngva Erni Kristinssyni og Jafeti Ólafssyni,“ segir Ingvi Hrafn, en auk þessara fastagesta munu aðrir öflugir gestir sem eru áberandi í þjóðmálaumræðunni heimsækja Hrafnaþing.
Fyrsta þáttinn má nálgast hér í Sjónvarpi mbl.is.