„Kulnun“ var valið orð ársins 2018 og „Klausturfokk“ nýyrði ársins af hlustendum Ríkisútvarpsins, en stofnun Árna Magnússonar valdi sögnina „plokka“ sem orð ársins. Þetta var kunngjört er Menningarviðurkenningar RÚV voru veittar í Útvarpshúsinu við Efstaleiti í dag.
Auk þessara orðaútnefninga fékk Elísabet Kristín Jökulsdóttir viðurkenningu Rithöfundasjóðs Ríkisútvarpsins fyrir ritstörf sín, en í rökstuðningi úthlutunarnefndar fyrir valinu sagði að eitt mikilvægasta framlag hennar til íslenskra bókmennta væru skrif hennar um kvenlíkamann, kynvitundina og skömmina.
„Hún hefur fært í orð þá hluti sem legið hafa í þagnargildi langt fram á okkar daga, og gerði það áður en samfélagið var tilbúið að hlusta. Það er fyrst með nýrri kynslóð kvenna og í kjölfar samfélagsmiðlahreyfinga síðustu ára sem samfélagið hefur öðlast getu að meta þetta framlag til fulls,“ sagði úthlutunarnefnd um Elísabetu Jökulsdóttur, en Rithöfundasjóður Ríkisútvarpsins hefur verið starfræktur frá 1956 og verðlaunar einn til tvo höfunda árlega.
Jónas Sigurðsson tónlistarmaður fékk svo Krókinn, verðlaun Rásar 2, sem veitt eru fyrir framúrskarandi lifandi tónlistarflutning á liðnu ári.