Mun líklega víkja á fyrsta fundi

Hildur Björnsdóttir, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins.
Hildur Björnsdóttir, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins. mbl.is/Árni Sæberg

Hildur Björnsdóttir, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, gerir fastlega ráð fyrir því að víkja úr þriggja manna hópi sem á að rýna niður­stöður skýrslu innri end­ur­skoðunar Reykja­vík­ur­borg­ar um bragga­málið á fyrsta fundi hans.

Eins og áður hefur komið fram ætlar Hildur að víkja úr hópnum ef Dagur B. Eggertsson borgarstjóri gerir það ekki. Borgarstjóri virðist ekki ætla að víkja en Kristín Soffía Jónsdóttir, borgarfulltrúi Samfylkingarinnar, sagði í morgun að slík krafa væri fráleit.

Áætlanir gera ráð fyrir því að fyrsti fundur hópsins fari fram í upphafi ársins. Hildur segir að allt fundahald í borginni fari á fullt í næstu viku og gerir ráð fyrir nefndarfundi þá. Hún hefur þó ekki fengið neitt fundarboð.

„Ef í ljós kemur að hann [borgarstjóriætli að sitja fundinn og nefndarstörfin þá mun ég formlega segja mig úr hópnum. Það getur vel verið að það gerist formlega á þessum fyrsta fundi,“ segir Hildur.

Spurð um framhald þriggja manna hópsins ef og þegar það gerist segist Hildur hreinlega ekki vita hvað verður. „Ég er ekki viss um að neinn úr minnihlutanum vilji sitja í nefndinni í þessari stöðu, hafandi borgarstjóra þarna inni,“ segir Hildur og bætir við að sér þyki mikilvægt að unnið sé vel úr málinu og að niðurstaðan njóti trausts.

„Fólki finnst óþægilegt að hann sitji í nefndinni og finnst það grafa undan trúverðugleika vinnunnar og þá finnst mér rétt að hann víki til hliðar í þágu þess að það fáist þarna góð niðurstaða. Sjáum hvað setur.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka