Skoða þarf hvert einasta tilvik

Sigríður Lillý forstjóri TR segir að fara þurfi yfir hvert …
Sigríður Lillý forstjóri TR segir að fara þurfi yfir hvert mál fyrir sig, enda aðstæður fólks margvíslegar. mbl.is/Eggert

„Frá því að álit umboðsmanns lá fyrir höfum við verið að vinna í því ásamt félagsmálaráðuneytinu að finna flöt á því hvernig bregðast ætti við því,“ segir Sigríður Lillý Baldursdóttir, forstjóri Tryggingastofnunar ríkisins, í samtali við mbl.is en umboðsmaður Alþingis komst að þeirri niðurstöðu síðasta sumar að ekki hafi verið staðið rétt að greiðslu örorkubóta til einstaklings með tilliti til búsetu.

Fjallað er um málið á vefsíðu Öryrkjabandalagsins í dag þar sem vísað er í bréf frá velferðarráðuneytinu til velferðarnefndar Alþingis þar sem fram kemur að málið varði um eitt þúsund öryrkja og að bætur til þeirra hafi verið skertar samtals um 500 milljónir á ári. Sigríður Lillý segist aðspurð kannast við þessar tölur enda séu þær komnar frá Tryggingastofnun. Öryrkjabandalagið segir ljóst að skerðingin undanfarin ár hlaupi þar með á milljörðum króna.

Sigríður Lillý segir að fara þurfi yfir hvert mál fyrir sig, enda aðstæður fólks margvíslegar. Mikil vinna sé því fyrir höndum. Vonir standi til þess að hægt verði að komast að niðurstöðu hvernig staðið verði að málum síðar í þessum mánuði. Sigríður leggur þó áherslu á að Tryggingastofnun sé aðeins framkvæmdaaðilinn í málinu. Sú framkvæmd sem um sé að ræða hafi átt sér stað í um tvo áratugi og verið ítrekað staðfest af viðeigandi úrskurðarnefndum allan þann tíma.

Sigríður Lillý Baldursdóttir, forstjóri TR.
Sigríður Lillý Baldursdóttir, forstjóri TR.

„Málið er síðan tekið upp af umboðsmanni sem felst ekki á framkvæmdina eins og hún hefur verið staðfest af úrskurðarnefndum í gegnum tíðina. Menn eru bara að vanda sig við það að finna lausn á málinu og það er flókið mál. Við reiknum með að komast til botns í þessu með ráðuneytinu nú í janúar. Þetta hefur bæði með innanlandsrétt og Evrópurétt að gera þar sem um er að ræða réttindi á Evrópska efnahagssvæðinu (EES),“ segir Sigríður ennfremur.

Skoða þurfi hvernig framkvæmdin er annars staðar innan EES og hvernig hægt sé að útfæra málið þannig að rétt sé staðið að því samkvæmt öllum lögum og reglum. „Það þarf að skoða hvert einasta tilvik fyrir sig, við þurfum að eiga í samskiptum við hvern og einn einstakling þegar framkvæmdinni verður breytt, allir eiga sinn andmælarétt. Síðan þarf að gæta þess að þetta komi hvergi niður á fólki. Það er ekki einfalt mál að taka upp réttindi einhver ár aftur í tímann.“ Þetta kalli á aukinn mannskap og þörf fyrir viðbótarfjárveitingu.

Boða fólk á fundi velferðarnefndar

Halldóra Mogensen, formaður velferðarnefndar Alþingis og þingmaður Pírata, segir í samtali við mbl.is að málið sé komið inn á borð nefndarinnar og verði tekið til skoðunar innan hennar. Meðal annars með því að kalla eftir frekari upplýsingum um málið og boða þá á fund nefndarinnar sem koma að því.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert