Lykti af pólitískri spilamennsku

Dóra Björt ætlar ekki að taka þátt í leikriti sem …
Dóra Björt ætlar ekki að taka þátt í leikriti sem hún segir Sjálfstæðisflokkinn vera setja upp. mbl.is/Hari

Dóra Björt Guðjónsdóttir, forseti borgarstjórnar og oddviti Pírata, segir kröfu Hildar Björnsdóttur, borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins, um að Dagur B. Eggertsson borgarstjóri víki sæti úr þriggja manna hópi sem á að rýna í niðurstöður innri endurskoðunar Reykjavíkurborgar um braggamálið svonefnda lykta af pólitískri spilamennsku og neitar að taka þátt í leikriti Sjálfstæðisflokksins.

„Mér finnst í raun of mikið gert úr skipun þessa hóps. Þetta er óformlegur hópur en ekki formlega skipuð nefnd og allir flokkar munu koma að málinu með einum eða öðrum hætti,“ segir Dóra Björt í samtali við mbl.is.

Hildur Björnsdóttir telur líklegt að hún segi sig formlega úr …
Hildur Björnsdóttir telur líklegt að hún segi sig formlega úr hópnum á fyrsta fundi. mbl.is/Eggert

Enginn að rannsaka sjálfan sig

„Mér finnst mikilvægt að taka það fram að hér er enginn að fara rannsaka sjálfan sig. Rannsóknin hefur farið fram af óháðum aðila. Við í meirihlutanum báðum um að hún tæki á öllum hliðum málsins og nú liggur skýrslan fyrir,“ segir Dóra og bætir við:

„Þessi hópur hefur takmarkað pólitískt vald enda á hann eingöngu að móta tillögur byggðar á þessum niðurstöðum og svo mun borgarráð taka afstöðu til þeirra.“

Henni finnst undarlegt að Sjálfstæðisflokkurinn hafi einróma samþykkt skipan hópsins á fundi borgarráðs „en rokið svo beint í fjölmiðla“ til að kvarta yfir hvernig hann sé skipaður. Hún spyr af hverju Sjálfstæðisflokkurinn hafi ekki komið áhyggjum sínum um skipan hópsins á framfæri á borgarráðsfundinum sem hafi einmitt verið vettvangurinn til þess.

Ábyrgðarlaust leikrit 

„Mér finnst það lykta af innantómri pólitískri spilamennsku án snefils af hugsjón þannig ég neita að taka þátt í þessu pólitíska leikriti Sjálfstæðisflokksins sem mér finnst ábyrgðarlaust og til þess fallið að tefja þessa vinnu,“ bætir Dóra við.

Hildur hefur áður sagt að minnihlutinn hafi gert athugasemdir við skipan hópsins strax í upphafi og Vigdís Hauksdóttir, borgarfulltrúi Miðflokksins, hefur einnig talað á sömu nótum. Í samtali við Morgunblaðið fyrir áramót sagði hún: „Ég hef gagn­rýnt það frá byrj­un og skip­un þessa hóps. Það er talað um að þetta sé hóp­ur minni- og meiri­hluta en þetta var til­kynnt ein­hliða á fundi borg­ar­ráðs án þess að nokk­ur vissi.“

Vigdís Hauksdóttir segist hafa gert athugasemd við skipun hópsins frá …
Vigdís Hauksdóttir segist hafa gert athugasemd við skipun hópsins frá því að hún var tilkynnt. mbl.is/Styrmir Kári

Oddviti Sjálfstæðisflokksins hafi kannski aðra sýn en Hildur

Dóra Björt bendir á að oddviti Sjálfstæðisflokksins hafi ekki verið viðstaddur fund borgarráðs þegar ákvörðun um skipan hópsins var tekin og það hafi kannski haft áhrif á afstöðu Hildar.

„Oddviti flokksins [Sjálfstæðisflokksins] var auðvitað fjarverandi á þessum borgarráðsfundi og hefur kannski haft aðra sýn á málið en Hildur,“ bendir Dóra á og heldur áfram:

„Hildi var boðið að vera með í hópnum fyrir hönd minnihlutans í anda lýðræðis og þegar Hildur ákvað að vera með í þessum hópi þá kom það mér mjög vel á óvart og mér þótti það jákvætt og hugsaði með mér að hún væri að taka framsýna og ábyrgðarfulla ákvörðun – en svo fór sem fór.“

Hafnar tækifæri til að hafa áhrif

Dóra Björt segist ekki vita hvernig framhaldið verður ef Hildur tekur þá ákvörðun á fyrsta fundi hópsins að segja sig formlega úr honum en segir að ef Sjálfstæðisflokkurinn bæri hag borgarbúa fyrir brjósti þá myndi hún ekki gera það.

„Við verðum að sjá til hvað setur en ég lít svo á að hún sé að hafna tækifæri til að hafa áhrif og mér þykir það leitt. Ég tel að ef Sjálfstæðisflokkurinn bæri hag borgarbúa fyrir brjósti þá myndi hún ekki gera það,“ segir Dóra.

„En ég vil undirstrika að mér þykir það hafa verið blásið upp hvað þessi hópur snýst um. Niðurstöður óháðrar rannsóknar liggja fyrir og hér er bara verið að að fara vinna ákveðna handavinnu í þessum hópi en ekki taka neinar endanlegar ákvarðanir heldur vinna tillögur sem verða lagðar fyrir borgarráð,“ segir Dóra Björt að lokum og tekur fram að borgarráð hafi muni á endanum taka ákvarðanir út frá tillögum hópsins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert