Sparnaður bæti fyrir gjaldtökuna

Vaðlaheiðargöng hafa nú verið opnuð. Gjaldtaka ganganna hefur verið gagnrýnd, …
Vaðlaheiðargöng hafa nú verið opnuð. Gjaldtaka ganganna hefur verið gagnrýnd, en stjórnarformaður segir að ávinningur af því að fara um þau sé meiri en sem nemur kostnaði. mbl.is/Þorgeir

Hilmar Gunnlaugsson, stjórnarformaður Vaðlaheiðarganga, segir notendur ganganna skjótlega munu finna fyrir þeim sparnaði sem göngunum fylgir og að hann nemi meiru en kostnaði við að fara um þau. Gunnar M. Guðmundsson, framkvæmdastjóri SBA-Norðurleiðar, sagði í samtali við RÚV í gær að fyrirtækið treysti sér ekki til að aka um göngin vegna hárra gjalda fyrir stóra bíla. Inntur eftir viðbrögðum við gagnrýninni segir Hilmar að samtal eigi sér stað þessa dagana við viðskiptavini og hagsmunaaðila.

„Við munum ræða við hann og fleiri um gjaldið og sjá hvernig reynslan verður. Gjaldskráin er í stöðugri endurskoðun, en ég held að menn muni strax finna að ávinningur af þessum göngum sé svo miklu meiri en sem nemi bara sparnaði á eldsneyti og þess háttar hlutum. Tími fólks og fleira þess háttar kemur inn í þetta,“ segir Hilmar.

Aðspurður segir hann tímasparnað við að fara um göngin við bestu aðstæður um tíu mínútur. „Síðan getur hann orðið miklu meiri þess utan, þegar það er ófærð og þess háttar,“ segir hann.

„Við viljum ræða við viðskiptavini okkar beint og erum sannfærðir um að við náum að finna þann milliveg sem þarf, annars vegar til að greiða upp lánið og hins vegar til þess að fólk nýti göngin,“ segir Hilmar.

Sjálfsagt að fjölga ferðum keyptum í einu lagi

Veggjald fyrir bíla sem vega meira en 3,5 tonn er 6 þúsund krónur fyrir staka ferð, en verð á hverja ferð ef keypt eru 40 skipti í einu er 5.200 krónur. Nemur afslátturinn 13%. Gunnar sagði þetta of dýrt miðað við fjölda dagsferða fyrirtækisins frá Akureyri.

„Afslátturinn er samkvæmt Evrópureglugerð og hann má ekki vera meiri,“ segir Hilmar. „Það er talað um samkeppnisakstur í reglugerðinni, en það yrði of flókið að ætla sér að greina þetta eftir tilefni aksturs. Við getum ekki miðað við annað en hlutlæg viðmið á borð við þyngd og látið það sama yfir alla ganga og þá má afslátturinn ekki vera meiri,“ segir hann.

Með því að fara göngin má spara tíu mínútur við …
Með því að fara göngin má spara tíu mínútur við bestu aðstæður. Meira þegar aðstæður eru verri eða ófært um Víkurskarð.

Einnig var gagnrýnt að ekki væri hægt að kaupa fleiri ferðir en 40 í einu, en Hilmar segir mjög auðvelt að gera breytingu á þessu.

„Við höfum verið í samtali við þessa aðila í langan tíma og höfðum stillt þessu þannig upp að það væri hægt að kaupa 120 ferðir. Þó að það sé hægt að kaupa 40 ferðir í einu, þá er hægt að gera það þrisvar og við héldum að það væri nóg. Það er að ekkert nema sjálfsagt að menn geti keypt sér fleiri ferðir. Auðvitað koma upp svona mál sem verða síðan löguð á nokkrum dögum eða vikum,“ segir Hilmar.

Fram kom í viðtali RÚV við Gunnar að á annasömustu dögum þyrfti fyrirtækið að greiða um 700 þúsund krónur í göngin.

„Ég fagna því að menn sjái fyrir sér svo mikil not á þessu samgöngumannvirki,“ segir Hilmar. „Þetta kemur reyndar ekki á óvart enda er t.d. töluvert um að skemmtiferðaskip leggi að á Akureyri og farið sé í nálægar náttúruperlur sem oftar en ekki eru austan megin við göngin. Ég hygg að menn hafi einfaldlega meiri tækifæri á að vinna tíma með því að nota göngin og ná fram meiri sparnaði en sem nemur þessum kostnaði. Ég vona það alla vega,“ segir hann.

Hagfelldari nálgun en í öðrum Evrópuríkjum

Gunnar gagnrýndi einnig að ekki væri sértakt gjald fyrir smærri hópbifreiðar, svonefnda „kálfa“, sem geta ferjað um tuttugu manns. Í gjaldskránni er aðeins gert ráð fyrir tveimur flokkum, öðrum fyrir bifreiðar undir 3,5 tonnum að þyngd og hinum yfir því marki.

„Ástæðan fyrir því að gjaldskráin er í tveimur flokkum er að við fórum að fordæmi nánast allra Evrópulanda. Þó er munurinn sá að við miðum við eigin þyngd meðan þar er miðað við heildarþyngd. Hér á landi hefði það þýtt að fleiri féllu í dýrari flokkinn. Þessi leið er hagfelldari að þessu leyti. Auðvitað eru verðin ekki alls staðar þau sömu, en það hvernig menn fara á milli flokka er sambærilegt. Eitt af því sem verður skoðað er hvort ástæða sé til að breyta, ekki bara verði, heldur einnig flokkum í gjaldskrá. Ég ætla ekkert að útiloka í þessum efnum, en ekkert hefur verið ákveðið og verður sjálfsagt ekki ákveðið alveg á næstunni,“ segir Hilmar.

Hann segir forsvarsmenn Vaðlaheiðarganga hafa átt í samvinnu við Samtök aðila í ferðaþjónustu fyrir hönd rútufyrirtækja.

„Við höfum einnig verið í samtali við einstaka aðila til þess að læra og greina þarfir. Það er þannig með samráð og samtal að það er alltaf hægt að gera betur og við leggjum okkur fram um það,“ segir hann. „Samtalið við SAF er um heildstæðar lausnir en síðan gerum við ráð fyrir að það verði gert einhvers konar samkomulag við hvern og einn sem flokkast sem stórnotandi,“ segir Hilmar. Á mánudag er fyrirhugaður fundur með fulltrúum bílaleiga.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert