Hundaeigendur varaðir við beittum stálbitum

Stálið er beitt og ljóst að það getur skaðað mikið …
Stálið er beitt og ljóst að það getur skaðað mikið er það er innbyrt. Ljósmynd/Aðsend

„Vinsamlegast farið varlega ef þið eruð að labba með hundana ykkar í Öskjuhlíð. Ég var að koma þaðan núna þar sem Mylla mín var að borða eitthvað rusl þar. Ég ákvað að skoða nánar hvað það er sem hún var að éta og það er dýrafita soðin utan um nokkuð beitta stálbita.“ Þetta segir í færslu á Facebook-síðu Hundavinafélagsins á Klambratúni (HFK).

Konu sem var í göngutúr með hundinn sinn í Öskjuhlíð brá gríðarlega þegar hún ákvað að skoða nánar skrítið rusl sem hundurinn hennar var að narta í. Í ljós kom að um var að ræða einhvers konar fitu sem soðin hefur verið utan um beittan stálbita sem líkist rakvélarblaði, sagði konan í samtali við mbl.is en hún vildi ekki láta nafns síns getið.

Fitubitarnir utan um stálið eru um fjórir sentímetrar að þvermáli og því geta stærri hundar auðveldlega gleypt þá og hlotið mikinn skaða af. Nokkrir slíkir bitar voru í Öskjuhlíðinni en ekki er vitað nákvæmlega hversu margir. Staðurinn er vinsæll útivistarstaður fyrir hunda og eigendur þeirra og því er fólk beðið um að hafa varann á.

Færslan í heild:

„Vinsamlegast farið varlega ef þið eruð að labba með hundana ykkar í Öskjuhlíð. 
Ég var að koma þaðan núna þar sem Mylla mín var að borða eitthvað rusl þar. Ég ákvað að skoða nánar hvað það er sem hún var að éta og það er dýrafita soðin utan um nokkuð beitta stálbita. Það voru fleiri bitar þarna víð á dreif en ég reyndi að taka það sem ég gat með mér svo fleiri hundar gleypi þetta ekki. 
Ég vildi vara ykkur við því ég veit að margir hér fara með hundana sína þangað.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert