Jón Viðar Arnþórsson, einn eigenda ISR Matrix á Íslandi, yfirbugaði á dögunum þjóf sem braust inn í bíl systur hans, Immu Helgu Arnþórsdóttur, en hún er þjálfari hjá ISR Matrix sem stendur að námskeiðum í öryggistökum og neyðarvörn.
Nokkrir iðkendur ISR Matrix komu að þjófnum og ekki verður annað sagt en að þjófurinn hafi valið sér „óheppilega andstæðinga“ enda Jón Viðar og félagar vel æfðir í þeirri tækni sem þarf til að yfirbuga fólk án þess að slasa það.
Tókst Jóni Viðari að fjarlægja þjófinn skjótlega úr bílnum, yfirbuga hann og setja hann í örugga stöðu. Þá var gengið úr skugga um að þjófurinn væri ekki vopnaður, en hann hafði sagt að hugsanlega hefði hann á sér sprautu. Því næst gaf hann leyfi fyrir því að leitað yrði á honum og fundust á honum tvö kort og hleðslubanki sem hann hafði stolið úr bílnum. Maðurinn var síðan færður í hendur lögreglu.
Myndband af atvikinu er að finna á Facebook-síðu ISR Matrix á Íslandi og fullyrða má að að öryggistökin hafi komið sér vel hjá iðkendunum.