Eyþór Arnalds, oddviti Sjálfstæðisflokksins í borgarstjórn, segir að Dagur B. Eggertsson borgarstjóri hafi lesið ranglega í stöðuna „þegar hann hélt að braggamálið gleymdist“ er því var vísað til innri endurskoðunar Reykjavíkurborgar.
„Sennilega vonaði hann að niðurstaðan yrði hvítþvottur og tímasetning birtingar skýrslunnar - rétt fyrir jól - tryggði að hún týndist í jólaflóðinu,“ skrifar Eyþór á Facebook-síðu sína.
Dagur sagðist í dag ekki ætla að verða við ósk Hildar Björnsdóttur, borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins, um að hann víki úr þriggja manna hópi sem á að rýna í niðurstöður innri endurskoðunar Reykjavíkurborgar vegna braggamálsins.
Eyþór segir að eðliegast hefði verið fyrir Dag að víkja sæti úr nefndinni. „Ekki bara vegna þess að hann væri þá að bregðast við áfellisdómi yfir sjálfum sér, líkt og brotamaður gerðist dómari í eigin sök. Heldur líka vegna þess að hann er algerlega vanhæfur. - Ráðherrar víkja iðulega sæti vegna vanhæfis þó [þeir] séu ekki sjálfir beinlínis til rannsóknar eins og borgarstjóri,“ skrifar Eyþór og talar um braggamálið sem prófmál á stjórnsýsluna.