Gagnrýna að ekki sé dýpkað yfir hávetur

Eyjamenn saka Vegagerðina um að hafa tekið ákvörðun um að …
Eyjamenn saka Vegagerðina um að hafa tekið ákvörðun um að horfa ekki á Landeyjahöfn sem heilsárshöfn. mbl.is/Rax

Bæjaryfirvöld í Vestmannaeyjum eru ósátt við Vegagerðina vegna dýpkunarmála í Landeyjahöfn og heldur formaður bæjarráðs Vestmannaeyja því fram að Vegagerðin hafi tekið ákvörðun um að Landeyjahöfn sé ekki heilsárshöfn. Vegagerðin vísar yfirlýsingum formanns bæjarráðs á bug og segir gagnrýnina byggða á vanþekkingu á aðstæðum til dýpkunar í höfninni með dýpkunarskipum.

Sigurður Áss Grétarsson, framkvæmdastjóri siglingasviðs Vegagerðarinnar.
Sigurður Áss Grétarsson, framkvæmdastjóri siglingasviðs Vegagerðarinnar.

Á fréttavefnum Eyjar.net birtist í dag viðtal við Njál Ragnarsson, formann bæjarráðs Vestmannaeyja, þar sem hann gagnrýnir að í útboði sé ekki gert ráð fyrir að dýpkun fari fram í Landeyjahöfn fyrr en í febrúar og Vegagerðin sé með því búin að taka ákvörðun um að loka höfninni hluta úr ári. „Það hefur alltaf verið gefið út að Landeyjahöfn sé heilsárshöfn og stefnt var að því að hafa hana opna allt árið um kring. Samkvæmt þessu er verið að viðurkenna ákveðinn ósigur og við það getum við ekki sætt okkur,“ segir Njáll.

Sigurður Áss Grétarsson, framkvæmdastjóri siglingasviðs Vegagerðarinnar, segir þessa gagnrýni furðulega. „Reynslan hefur sýnt, eins og þeir sem hafa kynnt sér málin ítarlega [vita], að dýpkun hefur ekki gengið í desember, janúar og febrúar. Það eru margfalt færri dýpkunardagar í hverjum þessara mánaða en til dæmis í nóvember eða mars,“ segir Sigurður.

Hann segir að þess vegna hafi verið ákveðið að ráðast í framkvæmdir á höfninni sem miði að því að draga úr hreyfingu skipsins við bryggju og eins þannig að dýpka megi frá landi með dælu úr krana sem dælir sandi upp úr höfninni. Ráðgert er að framkvæmdum ljúki að fullu á næsta ári.

„Við verðum að beita öðrum aðferðum til að halda dýpinu í höfninni viðunandi fyrir nýju ferjuna öðruvísi en að dýpka með dýpkunarskipi,“ segir Sigurður. „Það er hægt með nýju ferjunni því hún ristir minna en sú gamla,“ segir Sigurður en nýja ferjan, sem vonir standa til að hefji siglingar 30. mars, ristir um einum og hálfum metra grynnra en núverandi Herjólfur.

Vilja óháðan úttektaraðila í Landeyjahöfn

Njáll segir Eyjamenn vilja fá óháðan úttektaraðila til að taka Landeyjahöfn út með það fyrir augum að laga hana til framtíðar. „Við viljum fá algjörlega utanaðkomandi aðila sem getur farið yfir öll þau gögn og rannsóknir sem liggja fyrir með það fyrir augum að klára þetta mál og gera Landeyjahöfn að heilsárshöfn,“ segir hann.

Njáll Ragnarsson, formaður bæjarráðs Vestmannaeyja.
Njáll Ragnarsson, formaður bæjarráðs Vestmannaeyja. Ljósmynd/Aðsend

Hann segir það hvimleitt fyrir Eyjamenn að búa við stopular samgöngur. „Siglingatíminn er eitt,“ segir hann um siglingatímann þegar siglt er til Þorlákshafnar á meðan Landeyjahöfn er lokuð. „En ferðatíðnin er það sem mestu máli skiptir. Að sigldar séu fjórar eða fimm ferðir á dag í stað tveggja. Það er mikið frelsi sem fylgir því að fjölga ferðum, ekki síst fyrir fyrirtækin. Við erum að reyna að byggja upp ferðaþjónustu og Landeyjahöfn er akkilesarhæll þar sem hún lokast á haustin og yfir veturinn. Það hefur haft slæm áhrif á hóteleigendur sem fá yfir sig holskeflu afbókana um leið og upp koma vandræði með Landeyjahöfn.“

Hann segist vissulega sjá sjónarmið Vegagerðarinnar um að erfitt sé að dýpka á þessum árstíma „en eins og veðrið hefur verið í desember og janúar þá hefur verið hægt að dýpka við þessi veðurskilyrði,“ segir hann og bendir á að ölduhæð hafi verið 1,4 metrar í Landeyjahöfn í morgun. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert