Héðan í frá verður gangbrautarvarsla við gangbraut þá sem liggur yfir Hringbraut við gatnamótin við Meistaravelli. Þar varð slys, og ekki í fyrsta skipti, og er þessi ákvörðun viðbrögð borgaryfirvalda við því.
Sagt var frá því að íbúar Vesturbæjarins gagnrýndu í Facebook-hópi sínum harðlega aðgerðarleysi yfirvalda. Úr því verður nú bætt, í það minnsta fram á vor, uns frekari aðgerðir líta dagsins ljós.
Gæslan hefst við upphaf hvers skóldags, segir í tilkynningu sem Reykjavíkurborg sendi út. Þar segir jafnframt að boðað verði til samráðsfundar í næstu viku um málið og í framhaldi af því verði ráðist í meira afgerandi aðgerðir í samvinnu við Vegagerðina, veghaldara Hringbrautar.
„Það verður að lækka hámarkshraðann í götunni og bæta öryggi gangandi vegfarenda við allar gönguþveranir. Það skilar okkur mestum árangri ásamt því að bæta lýsinguna í götunni. Það verður einfaldlega ekki unað lengur við núverandi ástand, öryggi barna er ofar öllu,“ er haft eftir Sigurborgu Ósk Haraldsdóttur borgarfulltrúa Pírata í tilkynningu frá borginni.