Tölvuþrjótar hafa lagt til atlögu gegn vef Starfsgreinasambandsins. Þegar leitað er að Starfsgreinasambandinu á Google kemur efst upp „10 Ways to Attract Women – Love Systems“ undir formerkjum sgs.is.
Vísar síðan á bandaríska ráðgjafaþjónustu sem býðst til þess að aðstoða karlmenn að kynnast konum „skref fyrir skref“.
„Ertu að nálgast konur og stofna til samræðna án þess að það smelli milli ykkar? Ekki hafa áhyggjur, þú hefur fundið rétta staðinn,“ segir í lýsingu síðunnar á ensku.
„Þetta er væg árás á heimasíðu okkar,“ segir Flosi Eiríksson, framkvæmdastjóri Starfsgreinasambandsins, í samtali við mbl.is. Hann segir tölvukerfi félagsins enn heil og að unnið sé að því að koma heimasíðunni í lag.
„Við höfum ekki skipt um starfsvettvang,“ segir Flosi og hlær.