Kostar 48 milljarða að hækka ellilífeyrinn

Ásmundur Einar Daðason félagsmálaráðherra. Um 6.000 einstaklingar, 67 ára og …
Ásmundur Einar Daðason félagsmálaráðherra. Um 6.000 einstaklingar, 67 ára og eldri, sem búsettir eru á Íslandi hafa ekki sótt um ellilífeyri frá Tryggingastofnun. mbl.is/Kristinn Magnússon

Árlegur viðbótarkostnaður ríkissjóðs við almannatryggingakerfið næmi rúmum 48 milljörðum króna ef ákveðið yrði að hækka mánaðarlegar ellilífeyrisgreiðslur um 120.000 kr. Þetta kemur fram í svörum Ásmundar Einars Daðasonar félagsmálaráðherra við fyrirspurn Helga Hrafns Gunnarssonar, þingmanns Pírata, um kostnað við hækkun ellilífeyris.

Helgi Hrafn spurði hver árlegur viðbótarkostnaður ríkissjóðs við almannatryggingakerfið yrði ef ellilífeyrir væri hækkaður þannig að samtala ellilífeyris og heimilisuppbótar til ellilífeyrisþega næmi 420.000 kr.

Í dag er ellilífeyrir 239.484 kr. og heimilisuppbótin 60.516 kr. Í útreikningum vegna svars við fyrirspurn Helga Hrafns er gert ráð fyrir að ellilífeyririnn hækki um 120.000 kr. og sé 359.484, en heimilisuppbótin haldist óbreytt.

„Viðbótarkostnaður ríkissjóðs við þessa breytingu er áætlaður 48.459 millj. kr. á ári og er þá ekki gert ráð fyrir breytingum á frítekjumörkum eða skerðingarhlutföllum vegna framangreindra bótaflokka,“ segir í svari ráðherra. 

Tekið er fram í svarinu að í reikningsdæminu sé einungis um að ræða kostnaðarauka vegna þeirra ellilífeyrisþega sem þegar hafa sótt um, eða fá greiddan ellilífeyri hjá Tryggingastofnun ríkisins. Í dag séu hins vegar um 6.000 einstaklingar, 67 ára og eldri, sem búsettir eru á Íslandi, sem ekki hafa sótt um ellilífeyri frá Tryggingastofnun.

„Reikna má með að hluti þessa hóps hafi ekki sótt um ellilífeyri vegna þess að tekjur þeirra séu of háar til að þeir eigi rétt á ellilífeyri frá almannatryggingum. Ef fjárhæð ellilífeyris yrði hækkuð en aðrar reglur héldust óbreyttar þá leiddi það til hækkunar þeirra tekna sem valda því að bótaréttur fellur niður vegna tekna. Það gæti haft þau áhrif að einhverjir úr þessum hópi sem ekki eiga rétt á ellilífeyri núna vegna tekna mundu öðlast rétt til greiðslna,“ segir í svarinu og að erfitt sé að áætla hversu hár sá viðbótarkostnaður yrði.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert