Formleg vígsla Vaðlaheiðarganga fór fram í dag en göngin voru opnuð fyrir umferð 21. desember. Af þessu tilefni var blásið til heljarinnar hátíðar í og við göngin en göngunum var lokað í dag meðan á húllumhæinu stóð.
Fram eftir degi var m.a. reynt á þrek og þol í göngunum nýju en sem dæmi hélt Hjólreiðafélag Akureyrar nýársmót klukkan 09.30 og gönguskíðamenn í skíðagöngudeild skíðafélags Akureyrar fóru á hjólaskíðum í gegnum göngin.
Formleg vígsla ganganna hófst svo við gangamunnann Fnjóskadalsmegin klukkan 15.00 þar sem fjölmargt áhrifafólk af svæðinu tók til máls, þar á meðal Hilmar Gunnlaugsson, stjórnarformaður Vaðlaheiðarganga hf., Ásthildur Sturludóttir, bæjarstjóri á Akureyri, og Kristján Þór Júlíusson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra.
Vígslunni lauk laust eftir klukkan 16 þegar tveir eldri borgarar sem búsettir eru í sveitarfélögunum beggja vegna ganganna, Hólmfríður Ásgeirsdóttir á Hallandi á Svalbarðsströnd og Friðrik Glúmsson í Vallakoti í Þingeyjarsveit, sáu um borðaklippingu.
Valgeir Bergmann, framkvæmdastjóri Vaðlaheiðarganga hf., sagði í samtali við mbl.is að hátíðarhöld hefðu gengið vonum framar. Þá sagðist hann telja að um þúsund manns hefðu sótt gleðskapinn.
Á staðnum var einnig Steingrímur J. Sigfússon, þingmaður í kjördæminu og forseti Alþingis, en þegar mbl.is náði af honum tali var hann í kaffisamsæti í Valsárskóla á Svalbarðsströnd þar sem öllum var boðið í kaffi og meðlæti eftir athöfn.
„Hér er bros á hverju andliti. Þetta er mikill og langþráður gleðidagur og gaman að sveitarfélögin beggja vegna séu að standa sameiginlega að þessum hátíðarhöldum öllum,“ sagði Steingrímur.
Spurður um minjagripinn sem honum var gefinn, bút úr opnunarborðanum, sagði hann: „Ég ætla að halda vel upp á hann. Ég á reyndar nokkra borða úr hinum ýmsu framkvæmdum en ég mun halda sérstaklega vel upp á þennan. Þetta hefur auðvitað verið löng glíma, svo fyrir vikið er það er kannski enn þá ljúfara að sjá þetta verða að veruleika.“