„Ég hljóp bara inn í Vínbúðina“

Tveir haftyrðlar voru svo lánsamir að hitta vegfarendur sem buðu þeim far niður að sjó í gær. Um er að ræða heldur sjaldséða fuglategund hér á landi, enda áratugir síðan þeir höfðu í vana að sækja Ísland heim.

Atli Jósefsson mætti haftyrðli fyrir utan Hagkaup á  Eiðistorgi á Seltjarnarnesi í gær og veiddi hann í vínkassa undan góðu frönsku rauðvíni, að eigin sögn.

„Ég hljóp bara inn í Vínbúðina og fékk kassa og við keyrðum niður í fjöru, það var myrkur þannig að ég sá ekki alveg hvert hann fór, en þetta gekk bara vel,“ segir hann í samtali við mbl.is.

„Hann virkaði dálítið aðframkominn þannig að ég veit ekki hvort hann spjari sig, mestu líkurnar á því þarna,“ útskýrir Atli.

„Ég bjóst alls ekki við að sjá haftyrðil fyrir utan Hagkaup úti á Nesi,“ segir hann. „Þetta er mjög óvenjulegt. Ég er fuglaáhugamaður og horfi eftir fuglum, en þetta er í fyrsta sinn á ævinni að ég sé haftyrðil,“ bætir Atli við.

Hann segir fuglana frekar eiga heima á Grænlandi en á Íslandi og að hugsanlega hafi þeir sópast með miklu roki frá Grænlandi og hingað. Haftyrðill var áður með varp á Íslandi, en hefur ekki verpt hér á landi svo áratugum skiptir. Síðast í Grímsey.

Haftyrðill á vappi á Eiðistorgi í gær.
Haftyrðill á vappi á Eiðistorgi í gær. Ljósmynd/Atli Jósefsson

Annar í Hellusundi

„Ég hef aldrei lent í þessu og lendi ábyggilega aldrei í því aftur,“ segir Guðmundur Guðjónsson í samtali við mbl.is. Hann rakst á einn áttavilltan haftyrðil í Hellusundi í Reykjavík í gær.

„Hann var alveg óskaddaður. Hann var bara hér úti á miðri götu, hann flögraði eitthvað og gat ekki bjargað sér á flugi, bara rammvilltur greyið,“ segir Guðmundur sem sagði fyrst frá atvikinu í færslu á Facebook.

Hann fangaði fuglinn og setti haftyrðilinn í framsætið og fór með hann niður að höfn til þess að sleppa honum. „Hann var helsáttur þegar hann kom í vatnið, skeit og jós yfir sig vatni. Synti síðan út á höfn og hvarf sjónum,“ segir í færslunni.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert