Framkvæmdaleyfi veitt vegna tvöföldunar

Reykjanesbraut á milli Kaldárselsvegar og mislægra gatnamóta við Krýsuvíkurveg.
Reykjanesbraut á milli Kaldárselsvegar og mislægra gatnamóta við Krýsuvíkurveg. mbl.is/​Hari

Skipulags- og byggingaráð Hafnarfjarðarbæjar hefur samþykkt að veita Vegagerðinni framkvæmdaleyfi til að tvöfalda vegakaflann á Reykjanesbraut frá Kaldárselsvegi og vestur fyrir Krýsuvíkurgatnamót með því að byggja nýja akbraut sunnan núverandi vegar.

Skipulags- og byggingaráð leggur til að bæjarstjórn Hafnarfjarðar samþykki framkvæmdaleyfið, að því er segir í fundargerð. Gert er ráð fyrir að framkvæmdir geti hafist á þessu ári og verklok verði á árinu 2020.

Grafin fjóra metra niður

Í umsókn Vegagerðarinnar til Hafnarfjarðarbæjar um framkvæmdaleyfið kemur fram að nýja akbrautin verði lögð í svokölluðu þröngu sniði með þriggja metra breiða miðeyju milli akbrauta. Brautin verður grafin niður allt að fjóra metra á tveimur köflum. Í fyrsta lagi frá kaflanum frá núverandi göngubrú við Ásland og að Strandgötu og í öðru lagi gegnum Hvaleyrarholtið frá Þorlákstúni og vestur fyrir nýju undirgöngin við Suðurgötu.

Tvær nýjar göngubrýr yfir Reykjanesbraut

Í framkvæmdinni verða gerðar tvær nýjar göngubrýr yfir Reykjanesbraut. Sú fyrri verður milli Hvamma og Áslands á móts við Álftaás og sú seinni kemur í stað núverandi undirganga við Þorlákstún.

Samhliða breikkun Reykjanesbrautar verður ráðist í umfangsmiklar aðgerðir til að minnka umferðarhávaða í nágrenni brautarinnar. Ný hljóðmön verður gerð milli Reykjanesbrautar og Ásbrautar á móts við Erluás og einnig verður hljóðmön við Ásbraut á móts við Álftaás hækkuð.

Við Suðurhvamm verða einnig reistir glerveggir ofan á möninni sem ná inn á Strandgötu. Tveir hljóðveggir verða einnig settir upp við Strandgötubrú og meðfram Þúfubarði.

Háspennustrengir fjarlægðir

Samhliða vega- og brúargerð þarf að færa mikið af lögnum, að því er kemur fram í umsókninni. Þar er um að ræða 1,32 kV háspennustreng Landsnets, háspennustrengi frá HS veitum, vatnslagnir, hitaveitulagnir og fjarskiptalagnir. Reiknað er með að færsla lagnanna geti hafist fljótlega á þessu ári og verði að mestu lokið þegar vega- og brúargerð hefst.

Framkvæmdin er háð mati á umhverfisáhrifum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert