Vildu að fjárveiting yrði stöðvuð

Eyþór Arnalds, oddviti sjálfstæðismanna í borgarstjórn Reykjavíkur.
Eyþór Arnalds, oddviti sjálfstæðismanna í borgarstjórn Reykjavíkur. mbl.is/Eggert

„Dagur B. Eggertsson sýnir litla auðmýkt þegar ræða á braggamálið. Hann fer í pólítískar skotgrafir og er upptekinn af gera lítið úr öðrum borgarfulltrúum. Það er ekki mikil reisn yfir því,“ segir Eyþór Arnalds, oddviti sjálfstæðismanna í borgarstjórn Reykjavíkur, á Facebook-síðu sinni í dag vegna framgöngu Dags í Braggamálinu svokölluðu.

„Nær væri að framkvæmdastjóri borgarinnar sýndi ábyrgð og auðmýkt gagnvart þeirri staðreynd að á hans vakt var ekki bara stórfelld framúrkeyrsla, heldur um ólöglegar og óheimilar greiðslur að ræða. Hvar er auðmýktin gagnvart því að lög um skjalavörslu eru brotin þegar skjalavarsla er á borði skrifstofu borgarstjóra? Hvar er auðmýktin gagnvart skattfé almennings?“ segir Eyþór enn fremur.

Meirihlutinn ætti enn fremur erfitt að fara með rétt mál í Braggamálinu. „Það virðist afar erfitt fyrir þá sem eru í meirihluta í borginni að fara rétt með. Fullyrt hefur verið að tölvupóstum hafi ekki verið eytt. Innri endurskoðun staðfestir hið gagnstæða. Ítrekað hefur því verið haldið fram að allir flokkar hafi samþykkt braggaverkefnið sem kostaði næstum hálfan milljarð. Þar sem hundruð milljóna voru greiddar í heimildarleysi.“

Staðreyndin sé hins vegar sú að strax 1. desember 2015 hafi sjálfstæðismenn lagt til að fjárveiting til Braggaverkefnisins yrði stöðvuð. Þetta mætti kynna sér í fundargerðum borgarinnar. Vísar hann í fundargerð borgarstjórnar þar sem sjálfstæðismenn lögðu til að fjárveiting upp á 82 milljónir króna vegna Nauthólsvegar 100, það er braggans, yrði felld út úr fjárhagsáætlun borgarinnar 2016.

Breytingatillaga borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins var felld með níu atkvæðum borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, Bjartrar framtíðar, Vinstri grænna og Pírata gegn sex atkvæðum borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins og Framsóknar og flugvallarvina.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert