Fyrrverandi yfirlögregluþjónn á Vesturlandi var sektaður um 100.000 kr. í nóvember síðastliðnum vegna vændiskaupa. Þá hafði hann þegar beðist lausnar frá störfum sínum, en það gerði hann 1. júlí í fyrra, eftir að ríkissaksóknari hafði gert lögreglustjóranum á Vesturlandi viðvart um að lögregluþjónninn sætti rannsókn vegna meintra kaupa á vændi.
Frá þessu er greint á vef RÚV, en yfirlögregluþjónninn fyrrverandi var einnig á dögunum sektaður fyrir slagsmál sín og annars manns í Vestmannaeyjum, sem einnig er sagður vera lögreglumaður í frétt RÚV.
Í dóminum vegna slagsmálanna kemur fram að maðurinn hafi gengist undir sektargreiðslu vegna brots gegn kynferðisbrotakafla almennra hegningarlaga og Sigríður Friðjónsdóttir ríkissaksóknari segir við fréttastofu RÚV að hún hafi upplýst Úlfar Lúðvíksson, lögreglustjórann á Vesturlandi, um það í byrjun júní sl. að lögreglumaðurinn sætti rannsókn vegna meintra vændiskaupa.
Þetta staðfestir Úlfar og bætir við að yfirlögregluþjónninn hafi beðist lausnar 1. júlí, eða um mánuði eftir að lögreglustjóranum var gert viðvart um rannsókn á hendur honum.