Baldur Arnarson
Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, kallar eftir „gagngerum breytingum“ á íslenska lífeyriskerfinu. Kerfið sé dýrt fyrir fyrirtækin og geti jafnvel haldið niðri launum. Verkalýðsfélögin séu reiðubúin að skoða lækkun iðgjalda gegn því að laun verði hækkuð í samningunum.
VR, Efling og Verkalýðsfélag Akraness hafa sem kunnugt er vísað kjaradeilunni til ríkissáttasemjara. Ragnar Þór segir ávöxtunarkröfu lífeyrissjóða hafa ýmsar neikvæðar afleiðingar fyrir félaga í VR.
„Sé litið á ávöxtunarkröfuna á hagkerfið út frá innlendum eignum lífeyrissjóðanna eru þær á fimmta þúsund milljarðar og hærri en landsframleiðslan. Lífeyrissjóðirnir taka því bróðurpartinn af hagvextinum til sín í kröfu á ávöxtun sjóðakerfisins.
Það er meðal annars gert með því að halda uppi vaxtakostnaði almennings af húsnæðislánum og með því að halda uppi álagningu í smásölufyrirtækjum sem lífeyrissjóðirnir eiga. Þetta gerist líka með því að lækka kaupgjaldið,“ segir hann í umfjöllun um mál þetta í Morgunblaðinu í dag.