Notendasamtökin Hugarafl segja að það hafi vantað innsýn einstaklinga með persónulega reynslu af því öngstræti sem það er að vilja ekki lifa lengur, í umtöluðu Kastljósviðtali vegna ummæla Öldu Karenar Hjaltalín um geðheilbrigðismál á þriðjudag.
Samtökin ræddu málið á Hugaraflsfundi á miðvikudagskvöld og vilja koma því á framfæri að þau kunni Öldu Karenu þakkir fyrir að opna tækifæri til umræðu um geðheilbrigðismál.
„Mörg okkar í Hugarafli þekkjum á eigin skinni hvernig það er að langa ekki að lifa lengur og vitum vel að vandinn er margþættur, orsakirnar djúpstæðar og hvert og eitt okkar þarf að finna sína leið úr öngstrætinu. Það verður vissulega ekki einfaldað í eina fullyrðingu líkt og "ég er nóg". Við sáum hinsvegar margt athugavert við viðtalið í Kastljósi þar sem fréttamaður gekk hart að Öldu og Hafrún [Kristjánsdóttir] sálfræðingur var með einhliða gagnrýni á málflutning Öldu,“ segir í fréttatilkynningu frá Hugarafli.
Þau segja Hafrúnu hafa teiknað upp „svarta mynd af sjálfsvígshugsunum og -tilraunum sem virtust í umræðunni einungis enda á einn veg; það er með fráfalli einstaklingsins.“ Þá hafi umræðan verið afar sjúkdómsmiðuð og að mikið hafi verið gert úr geðsjúkdómastimplinum, vonleysið hefði verið algjört og að „einnig virtist sem einungis þaullærðir fagaðilar mættu ræða þessi mál og enginn annar.“
Sálfræðingafélag Íslands sendi frá sér yfirlýsingu vegna þessa sama máls á miðvikudagskvöld og sagði það vera siðferðislega skyldu heilbrigðisstarfsfólks að koma með ábendingar þegar opinber umræða væri á villigötum og sú umræða væri jafnvel líklegri til að skað fremur en að hjálpa. Það kæmi „nornaveiðum né menntasnobbi við“.
Hugarafl vill koma eftirfarandi á framfæri vegna umræðu vikunnar:
„Það er von. Þú getur verið í öngstræti og náð góðri líðan á nýjan leik. Við þekkjum það á eigin skinni að vera í svartasta svartnætti en finna tilgang og áframhaldandi tilvist hér á jörðu.
Það eru til leiðir til að líða betur. Það er til fullt af valmöguleikum og það er okkar verkefni að prófa okkur áfram og finna hvað hentar okkur til að ná bata.
Það er í lagi að tala um það ef okkur langar ekki að lifa lengur. Það skiptir máli að hafa einhvern sem hlustar. Svo þegar við erum komin á betri stað er líka í lagi að deila því sem hefur virkað fyrir okkur persónulega. Jafnvel einföldum ráðum eins og möntrum!“
Margumræddur fyrirlestur Öldu Karenar fer fram í Laugardalshöll í kvöld. Uppselt er á viðburðinn, en allur ágóði af honum mun renna til Pieta-samtakanna, sem sinna forvarnastarfi gegn sjálfsvígum og sjálfsskaða og styðja við aðstandendur.