Þingflokkur Pírata hefur lagt fram frumvarp að nýrri stjórnarskrá, sem byggir á frumvarpi stjórnlagaráðs og þeirri vinnu sem Alþingi fór í í kjölfarið. Er þetta í fyrsta skiptið sem slíkt frumvarp er lagt fram, að því er fram kemur í fréttatilkynningu frá Pírötum, sem segja frumvarpið veita möguleika á að halda vinnunni við nýju stjórnarskrána áfram þar sem frá var horfið árið 2013.
Þjóðaratkvæðagreiðsla um gildistöku nýju stjórnarskrárinnar hafi farið fram 20. október 2012 og hafi þá rúmir ⅔ þeirra sem greiddu atkvæði svarað því til að leggja ætti tillögur stjórnlagaráðs til grundvallar nýrri stjórnarskrá. Þrátt fyrir það hafi Alþingi enn ekki lokið við lögfestingu nýju stjórnarskrárinnar.
Segir í tilkynningunni að þingflokkur Pírata vilji með þessu leggja sitt af mörkum til að sá vilji íslensku þjóðarinnar að fá nýja stjórnarskrá verði virtur.