Meirihluti lækna vill Landspítalann á nýjan stað

Landspítali við Hringbraut. Meirihluti lækna vill að honum verði fundinn …
Landspítali við Hringbraut. Meirihluti lækna vill að honum verði fundinn nýr staður samkvæmt niðurstöðum viðamikillar skoðanakönnunar fyrir Læknafélag Íslands. mbl.is/Ómar Óskarsson

Meirihluti lækna á Íslandi telur staðsetningu Landspítala við Hringbraut í Reykjavík óheppilega og að þörf sé á nýju staðarvalsmati vegna byggingar nýs spítala samkvæmt niðurstöðum viðamikillar skoðanakönnunar, sem unnin var fyrir Læknafélag Íslands. Rúmlega 60% telja þetta. Niðurstöðurnar verða kynntar á árlegum Læknadögum sem hefjast í dag. Kannanir meðal almennings hafa ítrekað sýnt meiri stuðning við að finna Landspítalanum nýjan stað en að hafa hann áfram við Hringbraut.

Fjallað er um könnunina á vefsíðu Læknafélags Íslands en þar segir að samkvæmt niðurstöðum hennar telji enn fremur mikill meirihluti lækna sig vera undir of miklu álagi með tilheyrandi streitueinkennum, truflandi vanlíðan og sjúkdómseinkennum. Rúmlega helmingi lækna hafi fundist að þeir gætu ekki uppfyllt kröfur eða ráðið við tímaþröng í starfi. Þá séu svefntruflanir algengar á meðal lækna. Um helmingur lækna hafi undanfarna tólf mánuði á undan hugleitt oft eða stundum að láta af störfum.

Enn fremur kemur fram í niðurstöðunum að ríflega helmingur lækna sé ánægður með starfsumhverfi sitt og sömuleiðis með stjórnun þeirrar deildar sem þeir starfa í. Þó vanti talsvert upp á að skilgreiningar á starfssviði séu fullnægjandi og svigrúm til símenntunar og vísindastarfs sé of lítið. Nær allir læknar telja samkomulag við samstarfsfólk sitt í röðum lækna, hjúkrunarfræðinga, sjúkraþjálfara og annarra heilbrigðisstétta mjög gott.

Hins vegar virðist einelti og kynbundið ofbeldi sambærilegt við margar aðrar starfsstéttir. Þannig töldu tæplega 7% kvenna sig hafa orðið fyrir kynferðislegu áreiti á vinnustað síðustu þrjá mánuðina og 47% einhvern tímann á starfsævinni. Hjá körlum voru tölurnar 1% og 13%. Þegar kemur að einelti töldu sjö prósent svarenda í heild sig hafa orðið fyrir einelti á síðustu þremur mánuðum og 26% einhvern tímann á starfsævinni.

Hvað launakjör varðar voru 45% svarenda mjög eða frekar ósammála því að laun þeirra væru sanngjörn en 42% svarenda mjög eða frekar sammála því. Vinnuvika um fjórðungs þátttakenda var að meðaltali á bilinu 61-80 klukkustundir og 4% voru með yfir 80 unnar klukkustundir á viku. Aðeins um fjórðungur allra starfsstöðva taldist vera hæfilega mannaður en í um 72% tilvika þóttu þær vera undirmannaðar. Þá telur um helmingur lækna að íslensk heilbrigðisþjónusta sé sambærileg við það sem þeir þekkja í nágrannalöndum miðað við niðurstöðurnar. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert