Jón Birgir Eiríksson Magnús Heimir Jónasson
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra segir samningsaðila þurfa að komast lengra í viðræðum sínum áður en stjórnvöld grípi til aðgerða til að greiða fyrir samningum. „Hins vegar erum við reiðubúin til að gera allt sem við getum til að greiða fyrir því að hægt sé að lenda málunum,“ segir Katrín.
Átakshópur um húsnæðismál kynnir tillögur sínar á samráðsfundi stjórnvalda og heildarsamtaka á vinnumarkaði á morgun, en Katrín segir tillögurnar góðar „til skemmri og lengri tíma“.
Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, segir hlutverk stjórnvalda munu ráða úrslitum um framhaldið í kjaraviðræðum. Í samtali við Morgunblaðið segir hann að ekki hafi verið ákveðið hvaða tímarammi verði gefinn stjórnvöldum til að grípa til aðgerða. Ragnar Þór bindur miklar vonir við fyrrnefndar tillögur í húsnæðismálum og segir líklegt að VR slaki á launakröfum sínum komi stjórnvöld „með myndarlegum hætti“ að málinu.
Boðað hefur verið til sáttafundar í viðræðum Eflingar, VR, Verkalýðsfélags Akraness og Verkalýðsfélags Grindavíkur á morgun.
Í umfjöllun um samningamálin í Morgunblaðinu í dag segir, að ekki sé ósennilegt að Samtökum atvinnulífsins (SA) og Samiðn takist að ná samkomulagi um styttingu vinnuvikunnar, en félögin ræddu um vinnutíma í síðustu viku. VR og Efling hafa hafnað þessu, en Hilmar Harðarson, formaður Samiðnar, segir að möguleikar geti falist í styttingu vinnuviku fyrir iðnaðarmenn.