„Það blikka ákveðin viðvörunarljós þegar við finnum að fólki er misboðið við það sem við köllum klassískt myndmál. Þá finnst okkur við vera farin að færast í átt að einhverju sem gæti kallast ritskoðun,“ sagði Harpa Þórsdóttir, forstöðumaður Listasafns Íslands, þegar hún var í gær spurð út í þá ákvörðun stjórnenda Seðlabanka Íslands að fjarlægja og setja í geymslu málverk eftir Gunnlaug Blöndal (1893-1962), einn þekktasta og vinsælasta myndlistarmann þjóðarinnar á sinni tíð.
Það spurðist út í fyrrasumar að innan Seðlabankans væri skoðað hvernig ætti að bregðast við kvörtun starfsmanns yfir málverkum eftir Gunnlaug, starfmaðurinn taldi verkin ósæmileg og vildi að þau yrðu fjarlægð. Á föstudaginn var síðan í Fréttablaðinu greint frá þeirri ákvörðun bankans að fjarlægja umrædd nektarmálverk listamannsins og voru þau sett í geymslu.
Seðlabankinn á glæsilegt og vandað listaverkasafn sem prýðir húsakynnin og hefur verið safnað af miklum og virðingarverðum metnaði. Á seinni árum hefur bankinn í stað þess að kaupa ný verk veitt myndarlega og mikilvæga styrki til listamanna í hinum ýmsu greinum.
Skiljanlega vöktu þær umtal fréttirnar af bannfæringu módelmynda Gunnlaugs Blöndal, einmitt þeirra verka listamannsins sem hafa til þessa dags verið hans vinsælustu. Bandalag íslenskra listamanna sendi frá sér yfirlýsingu og segir það undarlega tímaskekkju „puritanisma“ að ritskoða list með þessum hætti.
Undirritaður óskaði í gær eftir gögnum frá Seðlabankanum sem skýrðu á hvaða forsendum ákvörðunin um að taka listaverk eftir Gunnlaug niður byggðist, og spurði jafnframt hvort leitað hefði verið til Listasafns Íslands eða sérfræðinga eftir ráðgjöf. Harpa, forstöðumaður Listasafns Íslands, sagði aðspurð að ekki hefði verið leitað eftir neinni ráðgjöf hjá safninu. Þá væri listaverkaeign bankans safninu alveg óviðkomandi.
„Seðlabankinn gengur afar vel um verk sín og það er ekkert við það að athuga að bankinn eigi listaverk, heldur er það hið besta mál. Og það ætti að kaupa meira af myndlist inn á stóra vinnustaði,“ segir hún.
„Við höfum átt farsælt samstarf við bankann og höfum meira að segja fengið lánuð þaðan verk eftir Gunnlaug Blöndal á sýningar. Meðal annars umrætt málverk. Það ætti að vera staðfesting á gæðum þegar við fáum lánuð verk til að sýna.
Þessi verk Gunnlaugs vöktu athygli og vissulega sýndist sitt hverjum en þau voru mjög vinsæl alla tíð. Góð módelmynd eftir Gunnlaug Blöndal er eftirsótt,“ segir Harpa.
Síðdegis í gær barst svar frá Stefáni Jóhanni Stefánssyni, ritstjóra á skrifstofu seðlabankastjóra. Hann segir umræðuna um nefnd málverk eiga langan aðdraganda. „Starfsmenn hafa lýst þeirri skoðun sinni að ekki sé æskilegt að konur þurfi að bera upp erindi sín við karlkyns yfirmenn með málverk af berum konum fyrir framan sig,“ segir hann.
„Með hliðsjón af jafnréttisstefnu, stefnu gegn einelti og áreitni var ákveðið að bregðast við þessum ábendingum, m.a. með hliðsjón af jafnréttisáætlun. Þessi ákvörðun [um að fjarlægja málverkin] hefur ekkert að gera með listrænt mat og felur ekki í sér neinn dóm um þessar myndir. Hér var um að ræða uppsetningu vinnuumhverfis og þar sem myndirnar virtust á þessum stað hafa truflandi áhrif var sátt um að þær gætu ekki verið þar. Um er að ræða tvö verk eftir Gunnlaug Blöndal.“
Þá bætir Stefán Jóhann við að búið sé að taka ákvörðun um að sýna verkin í Seðlabankanum á Safnanótt hinn 8. febrúar næstkomandi – búast má við því að sú sýning veki áhuga.
Nánar má lesa um málið í Morgunblaðinu í dag.