Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu varar við grýlukertum en þau er víða að finna þessa dagana. Í færslu á Facebook-síðu lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu segir að nokkur hætta geti stafað af grýlukertum og því sé full ástæða til að hvetja vegfarendur til að sýna aðgát, ekki síst á miðborgarsvæðinu. Þetta á einnig við um snjóhengjur sem lafa fram af húsþökum.
Eigendur og umráðamenn húsa eru beðnir um að bregðast við en hinum sömu er jafnframt bent á ákvæði í lögreglusamþykkt en þar segir að eiganda eða umráðamanni húss sé skylt að fjarlægja af húsi sínu snjó og grýlukerti, sem fallið geta niður og valdið hættu fyrir vegfarendur.