„Við erum ekki á þingi fyrir þetta fólk“

Lilja Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra, gengur frá Gunnari Braga Sveinssyni, …
Lilja Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra, gengur frá Gunnari Braga Sveinssyni, þingmanni Miðflokksins, eftir að hafa átt við hann orðastað í morgun. mbl.is/​Hari

„Við ákváðum að snúa aft­ur á Alþingi í dag vegna þess hvernig þessi mál hafa verið að þró­ast eins og fram kem­ur í yf­ir­lýs­ing­um okk­ar. Þar af leiðandi ger­ist þetta býsna hratt. Marg­ir hafa tekið vel á móti okk­ur en eðli­lega eru ekk­ert all­ir ánægðir með að fá okk­ur til baka. En við erum ekki á þingi fyr­ir þetta fólk. Við erum þar vegna þeirra sem kusu okk­ur á þing. Við erum á þingi til þess að vinna fyr­ir þá og það ætl­um við að gera.“

Þetta seg­ir Gunn­ar Bragi Sveins­son, þingmaður Miðflokks­ins, í sam­tali við mbl.is en þeir Bergþór Ólason, sam­flokksmaður hans, sneru aft­ur á Alþingi í dag eft­ir að hafa tekið sér leyfi frá þing­störf­um í tæpa tvo mánuði í kjöl­far svo­kallaðs Klaust­urs­máls sem kom upp í lok nóv­em­ber á síðasta ári. Gunn­ar Bragi seg­ir aðspurður að hug­mynd­in hefði verið að vera leng­ur í leyfi en hvernig málið hefði þró­ast hefði hins veg­ar orðið til að breyta því.

Lilja ræddi í tvígang við Gunn­ar Braga

Vís­ar hann þar til yf­ir­lýs­ing­ar sinn­ar sem hann sendi frá sér í morg­un þar sem seg­ir að vegna vinnu­bragða Stein­gríms J. Sig­fús­son­ar, for­seta Alþing­is, varðandi meðferð for­sæt­is­nefnd­ar á Klaust­urs­mál­inu, eft­ir að því var vísað til nefnd­ar­inn­ar af hópi þing­manna og umræðu um málið á þingi eft­ir að það kom sam­an aft­ur, hafi orðið til þess að óhjá­kvæmi­legt hafi verið að snúa aft­ur og geta svarað fyr­ir sig á þeim vett­vangi.

Lilja Dögg ræðir við Gunnar Braga í morgun.
Lilja Dögg ræðir við Gunn­ar Braga í morg­un. mbl.is/​​Hari

Ljóst er að viðtök­urn­ar hjá ýms­um þing­mönn­um í garð Gunn­ars Braga og Bergþórs hafa verið kald­ar. At­hygli vakti þegar Lilja Al­freðsdótt­ir, mennta- og menn­ing­ar­málaráðherra, gekk í tvígang úr ráðherra­stól sín­um og að Gunn­ari Braga þar sem hann sat í þingsaln­um á miðjum þing­fundi, sagði eitt­hvað við hann og gekk síðan í burtu. Í seinna skiptið út úr þingsaln­um. Spurður um þetta seg­ir Gunn­ar Bragi það ein­ung­is á milli þeirra.

Ekki hef­ur náðst í Lilju en í sam­tali við Rík­is­út­varpið seg­ist hún ekki hafa átt von á þeim Gunn­ari Braga og Bergþóri á Alþingi í dag og að sam­tal henn­ar við Gunn­ar Braga hafi snú­ist um það. Hún hafi ekki verið sátt við þessa fram­komu þeirra.

Hvenær má taka sam­tal fólks upp?

„Við nýtt­um þetta leyfi ann­ars mjög vel til þess að hugsa um það sem gerðist og ræða við okk­ar stuðnings­fólk sem í 99,9% til­vika vildi fá okk­ur inn aft­ur. Það er fólkið sem við þurf­um að svara til. Ekki þeir sem eru inni á þingi. Ég hef beðist fyr­ir­gefn­ing­ar á því sem gerðist. Hins veg­ar þarf að kom­ast að því hvort fólk sé al­mennt sátt við að ólög­leg­ar upp­tök­ur séu stundaðar og það sé bara í góðu lagi,“ seg­ir Gunn­ar Bragi.

Vís­ar hann þar til upp­tök­unn­ar á sam­tali hans, Bergþórs og nokk­urra annarra þing­manna á öld­ur­hús­inu Klaustri í nóv­em­ber sem varð upp­haf máls­ins. „Hvar eru mörk­in á því? Hvenær má taka sam­tal fólks upp? Væri til dæm­is í lagi ef ein­hver tæki upp okk­ar sam­tal ef við sæt­um ein­hvers staðar sam­an bara vegna þess að ég er alþing­ismaður? Hvar eru mörk­in? Þetta mál er ein­fald­lega miklu stærra en sem nem­ur bara þess­um eina at­b­urði.“

mbl.is

Bloggað um frétt­ina

Fleira áhugavert

Innlent »

Fleira áhugavert