Þingflokksformenn funduðu á Alþingi í dag til að ræða endurkomu þingmanna Miðflokksins, þeirra Gunnars Braga Sveinssonar og Bergþórs Ólasonar, í þingsal eftir tæplega tveggja mánaða launalaust leyfi.
Steingrímur J. Sigfússon staðfestir í samtali við mbl.is að óskað hafi verið eftir fundinum, fyrst af einum þingflokksformanni en fleiri hafi síðan tekið undir. „Ég varð að sjálfsögðu við því. Við hittumst í hádeginu og ræddum okkar innri mál,“ segir Steingrímur en vill ekki fara nánar út í tilefni fundarins.
Guðmundur Ingi Kristinsson, þingflokksformaður Flokks fólksins, segir hins vegar í samtali við mbl.is að tilefni fundarins hafi verið endurkoma Gunnars Braga og Bergþórs. Sjálfur segist hann þó ekki hafa óskað sérstaklega eftir fundinum.
„Þetta er mjög leiðinlegt mál. Þeir virðast ætla að koma með offorsi inn á þingið aftur og þeim konum sem lent hafa á milli tannanna á þeim líður ekki vel yfir því hvernig þeir haga sér,“ segir Guðmundur Ingi.
Hann sótti fundi Norðurlandaráðs á Grand hóteli fyrr í vikunni og segir íslensku þingmennina hafa fengið fjölda fyrirspurna vegna málsins. „Það sem mér finnst sorglegast er að það er litið upp til Íslands varðandi kynjajafnrétti, og ég fann á þeim sem ég ræddi við að þetta olli þeim gífurlegum vonbrigðum. Fólki er brugðið.“