Funduðu um endurkomu þingmanna

Guðmundur Ingi í sæti sínu í þingsal í dag.„Þeir virðast …
Guðmundur Ingi í sæti sínu í þingsal í dag.„Þeir virðast ætla að koma með offorsi inn á þingið aftur,“ segir hann. mbl.is/​Hari

Þingflokksformenn funduðu á Alþingi í dag til að ræða endurkomu þingmanna Miðflokksins, þeirra Gunnars Braga Sveinssonar og Bergþórs Ólasonar, í þingsal eftir tæplega tveggja mánaða launalaust leyfi.

Steingrímur J. Sigfússon staðfestir í samtali við mbl.is að óskað hafi verið eftir fundinum, fyrst af einum þingflokksformanni en fleiri hafi síðan tekið undir. „Ég varð að sjálfsögðu við því. Við hittumst í hádeginu og ræddum okkar innri mál,“ segir Steingrímur en vill ekki fara nánar út í tilefni fundarins.

Guðmundur Ingi Kristinsson, þingflokksformaður Flokks fólksins, segir hins vegar í samtali við mbl.is að tilefni fundarins hafi verið endurkoma Gunnars Braga og Bergþórs. Sjálfur segist hann þó ekki hafa óskað sérstaklega eftir fundinum.

Frá Alþingi í dag.
Frá Alþingi í dag. mbl.is/​Hari

„Þetta er mjög leiðinlegt mál. Þeir virðast ætla að koma með offorsi inn á þingið aftur og þeim konum sem lent hafa á milli tannanna á þeim líður ekki vel yfir því hvernig þeir haga sér,“ segir Guðmundur Ingi.

Hann sótti fundi Norðurlandaráðs á Grand hóteli fyrr í vikunni og segir íslensku þingmennina hafa fengið fjölda fyrirspurna vegna málsins. „Það sem mér finnst sorglegast er að það er litið upp til Íslands varðandi kynjajafnrétti, og ég fann á þeim sem ég ræddi við að þetta olli þeim gífurlegum vonbrigðum. Fólki er brugðið.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert