„Íbúar Vesturbæjar eru búnir að fá nóg af umferðarteppum og vilja bætt umferðaröryggi,“ segir Marta Guðjónsdóttir, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, í samtali við mbl.is eftir fund um samgöngumál sem haldinn var í Hagaskóla í kvöld.
Lengi hefur verið kallað eftir endurbótum á Hringbraut, en málið komst í hámæli þegar ekið var á barn á gatnamótum Meistaravalla og Hringbrautar 9. janúar.
Á fundinn mættu fulltrúar allra flokka sem sæti eiga í borgarstjórn og tóku þátt í pallborðsumræðum, en það var Félag sjálfstæðismanna í Nes- og Melahverfi sem stóð fyrir fundinum. Framsögumaður var Ólafur Kr. Guðmundsson umferðarsérfræðingur.
„Á fundinum kom meðal annars fram að lýsingu og merkingum við gangbrautir er verulega ábótavant á Hringbraut,“ segir Marta, en að skiptar skoðanir hafi verið á því hvernig leysa beri vandann meðal kjörinna fulltrúa.
„Við sjáum fyrir okkur lausnir sem hægt er að fara í strax, eins og að merkja betur gangbrautir, bæta lýsingu og setja til dæmis upp hraðamyndavélar en viljum síðan sjá langtímalausnir eins og undirgöng eða göngubrýr yfir Hringbrautina.“
Hringbrautin skipti hverfinu í tvennt og að kannanir hafi sýnt að börn sem búsett eru í gamla Vesturbænum sæki síður íþrótta- og tómstundastarf því þau þurfi að fara yfir götuna. Þá eigi umferð um Hringbraut eftir að stóraukast á næstu árum.
„Hringbraut er stofnbraut, þjóðvegur í þéttbýli sem tengir saman sveitarfélög, og fram undan er mikil íbúafjölgun vestast í Vesturbænum, á Héðinsreit, BYKO-reit og Landhelgisgæslureit, sem mun stórauka þar umferð.“