Hafsteinn Filippusson, húsgagnasmiður í Ástralíu, hefur bjargað mörgum íslenskum sjónvarpsupptökum frá glötun og sett þær inn á Youtube, þar sem þær eru öllum aðgengilegar.
„Þetta hefur almennt mælst vel fyrir enda er tilgangurinn að bjarga verðmætum,“ segir hann í samtali í Morgunblaðinu í dag.
Hjónin Hafsteinn og Arndís Magnúsdóttir fluttu með tvær dætur og tvo syni til Tamborine í Queensland í Ástralíu, um 60 km frá Brisbane, árið 1980. Þau eru öll þar enn fyrir utan yngri dótturina. „Hún ætlaði að skoða heiminn fyrir um 25 árum, byrjaði á því að fara til Vancouver í Kanada, en fór aldrei lengra og settist þar að,“ segir Hafsteinn.
Undanfarin 20 ár hefur hann rekið fyrirtækið Steinco í aðstöðu heima en áður átti hann fyrirtækið Filippusson Cabinetmaking, sem síðar var breytt í Deskmasker & Chairmasters í Brisbane, rak það í um 19 ár og var mest með 45 manns í vinnu við að smíða skrifstofuhúsgögn. „Flestir á mínum aldri eru hættir að vinna, en ég vil ekki breyta lífinu þótt árunum fjölgi,“ segir Hafsteinn, sem verður 77 ára í ár.
Sjá samtal við Hafstein í heild á baksíðu Morgunblaðsins í dag.