„Við höfum tekið við málinu og höfum fengið gögn málsins í hendur og erum byrjuð að kynna okkur þau. Fleira er í sjálfu sér ekki að segja um það á þessu stigi.“
Þetta segir Steinunn Þóra Árnadóttir, þingmaður Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs, í samtali við mbl.is en hún og haraldur Benediktsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, hafa tímabundið verið kosin í hóp varaforseta Alþingis til þess að koma Klaustursmálinu svonefndu til siðanefndar þingsins til meðferðar.
Málinu var vísað til forsætisnefndar Alþingis í lok nóvember á síðasta ári af hópi þingmanna en Steingrímur J. Sigfússon, forseti þingsins, og allir varaforsetar lýstu sig í kjölfarið vanhæfa til þess að fjalla um það í ljósi þess að þeir hefðu tjáð sig um það.
Fyrir vikið var farin sú leið að kjósa tvo varaforseta til viðbótar við þá sem fyrir voru til þess að fara með Klaustursmálið en einungis fáeinir þingmenn reyndust ekki vanhæfir til þess.
Þegar þau Steinunn Þóra og Haraldur hafa farið yfir gögnin verður að sögn Steinunnar boðað til fundar en það hafi hins vegar ekki verið gert enn.